Þetta er lexía

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er svekkjandi tap og það er óþarfi að tapa þessum leik,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, við mbl.is eftir 2:1-tap gegn Val í 4. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld. KR er í 7. sæti með 6 stig.

„Það var ótrúlegt að ganga út af í hálfleik 2:0 undir, því við spiluðum fyrri hálfleik mjög vel. Auðvitað er Valsliðið sterkt, með fljóta menn sem geta refsað þér ef þú gleymir þér í eitt augnablik. Mér fannst þetta jafnast í seinni hálfleik. Þetta var hörkuleikur og það er sárt að tapa,“ bætti Willum við.

Seinni hluta fyrri hálfleiks stungu Valsmenn boltanum trekk í trekk í gegnum vörn KR-inga og gestirnir í raun heppnir að fá ekki fleiri en eitt mark á sig á þeim kafla. Willum segir að þetta hafi verið skrítinn kafli.

„Það kom kafli sem var út úr skipulagi, ekki það sem við erum vanir að gera. Við vorum allt of flatir alla vega í tvígang og vorum heppnir að fá ekki á okkur fleiri mörk á þeim tíma. Við vorum búnir að lesa hraðann hjá þeim ágætlega en svo gleymum við okkur tvisvar þar sem sóknarmaðurinn þeirra er klárlega rangstæður og þeir taka seinna hlaupið.“

KR-ingar voru ósáttir við seinna mark Vals en þá kom stungusending inn fyrir á Kristin Inga Halldórsson, sem var rangstæður. Kristinn lét boltann vera, Sigurður Egill Lárusson tók hann og skoraði af öryggi.

„Við stoppum af því að maðurinn er rangstæður. Ég skal ekki sverja fyrir seinni manninn, mér fannst hann vera rangstæður, en við eigum ekki að stoppa í þeirra stöðu. Við eigum að halda áfram, þetta er lexía.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert