Sætur sigur Vals gegn erkifjendunum

Guðjón Pétur Lýðsson skýlir boltanum frá Robert Sandnes í dag.
Guðjón Pétur Lýðsson skýlir boltanum frá Robert Sandnes í dag. mbl.is/Golli

Valur sigraði KR, 2:1, í 4. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld. Valur er í öðru sæti deildarinnar með 10 stig en KR er í sjöunda sæti með 6 stig.

KR-ingar byrjuðu leikinn betur en heimamenn skoruðu í raun í fyrsta skipti þegar þeir komust yfir miðju. Arnar Sveinn Geirsson tók langt innkast á 14. mínútu, Haukur Páll Sigurðsson skallaði boltann á fjærstöng þar sem Guðjón Pétur Lýðsson var aleinn og skoraði af öryggi.

Gestirnir sóttu af krafti eftir markið og Óskar Örn Hauksson fiskaði vítaspyrnu sjö mínútum eftir markið. Óskar tók vítið sjálfur en skaut boltanum í utanverða stöngina.

Seinni hluta hálfleiksins sóttu liðin á víxl. Kristinn Ingi Halldórsson klúðraði tveimur dauðafærum og Anton Ari Einarsson varði í eitt skipti glæsilega frá Kennie Chopart.

Það var svo á síðustu mínútu hálfleiksins sem Valsmenn skoruðu annað mark sitt. Dion Acoff gaf sendingu inn fyrir vörn KR, á Kristin Inga, sem var kolrangstæður. Kristinn lét boltann vera, Sigurður Egill var réttstæður, tók boltann og skoraði af öryggi. Staðan 2:0 fyrir Val að loknum fjörugum fyrri hálfleik.

Það var ekki alveg jafnmikið fjör í seinni hálfleik. Gestirnir voru meira með boltann en gekk verr að skapa sér færi en í fyrri hálfleik.

Þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka fengu KR-ingar aðra vítaspyrnu þegar Anton Ari braut á Pálma Rafni Pálmasyni. Tobias Thomsen skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni, staðan 2:1 og nógur tími til stefnu fyrir KR til að jafna metin.

KR-ingar sköpuðu sér ekki fleiri færi og Valsmenn fögnuðu sætum sigri.

Valur 2:1 KR opna loka
90. mín. Finnur Orri Margeirsson (KR) á skot framhjá Yfir markið, skot utan teigs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert