Víkingar fara yfir stöðuna í dag – Milos í Kópavoginn?

Arnþór Ingi Kristinsson og Gísli Eyjólfsson í baráttu um boltann …
Arnþór Ingi Kristinsson og Gísli Eyjólfsson í baráttu um boltann á Víkingsvelli í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki hefur verið tekin nein ákvörðun um það hver verður næsti þjálfari karlaliðs Víkings í knattspyrnu en sem kunnugt er lét Milos Milojevic óvænt af störfum á föstudaginn og hefur gengið frá starfslokum við félagið.

„Það eru rólegheit hjá okkur eins og er en við ætlum að funda seinni partinn í dag og taka stöðuna,“ sagði Haraldur V. Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, í samtali við mbl.is í dag en hann staðfesti að gengið hafi verið frá starfslokum við Milos fyrr í dag.

Milos hefur verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Breiðabliki sem einnig er í þjálfaraleit eftir að Arnari Grétarssyni var sagt upp í síðustu viku og nú þegar Milos hefur gengið frá starfslokasamningi sínum við Víking gætu Blikarnir sett sig í samband við hann.

Aðstoðarþjálfarinn Dragan Kazic og Hajrudin Cardaklija markvarðaþjálfari stýrðu Víkingsliðinu í tapleiknum gegn Breiðabliki í gær en Víkingar hafa tapað þremur leikjum í Pepsi-deildinni í röð eftir að hafa unnið KR-inga í fyrstu umferðinni.

„Einn af möguleikunum er sá að þeir Dragan og Hajrudin taki við liðinu en við ætlum að fara yfir málin seinni partinn í dag og meta stöðuna,“ sagði Haraldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert