Þetta er gaman en erfitt

Sigrún Ella Einarsdóttir og Erna Guðrún Magnúsdóttir í kapphlaupi um …
Sigrún Ella Einarsdóttir og Erna Guðrún Magnúsdóttir í kapphlaupi um boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sigrún Ella Einarsdóttir í liði Stjörnunnar átti mjög góðan leik í 3:1-sigri Garðbæinga á FH í sjöttu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Við vissum að FH-stelpurnar kæmu mjög grimmar í þennan leik. Þær hafa byrjað tímabilið frábærlega og það er alltaf erfitt að koma í Kaplakrika. Við þurftum að byrja þennan leik vel og mér fannst við gera það,“ sagði Sigrún Ella við mbl.is, en eftir sex umferðir hefur Stjarnan ekki tapað.

„Maður stefnir að því að vinna hvern einasta leik, en allir leikir eru mjög erfiðir í þessari deild og við erum bara mjög ánægðar með stigin sem við erum komnar með,“ sagði Sigrún Ella.

Fyrirliðinn Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvívegis og hefur skorað í öllum sex leikjunum til þessa, alls átta mörk.

„Hún er búin að standa sig frábærlega á þessu tímabili og hefur haldist heil, sem er ekki búið að gerast mjög lengi svo hún er að sýna hvað hún getur. Það er frábært fyrir okkur og hana sjálfa,“ sagði Sigrún.

Stjarnan hefur unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli og mætir toppliði Þórs/KA í næstu umferð.

„Það verður algjör toppslagur og við stefnum á þrjú stig, en það verður ótrúlega erfiður leikur enda eru þær búnar að vinna alla leikina sína. Þetta verður hörkuslagur og hvert einasta stig telur. Þess vegna eru allir leikir mjög mikilvægir, sama hvort það sé á móti liðinu sem er í neðsta sæti eða toppnum. Það má ekki misstíga sig í þessari deild,“ sagði Sigrún Ella.

Nú þegar maímánuður er ekki einu sinni liðinn eru strax búnar sex umferðir í Pepsi-deild kvenna, enda er leikið þétt vegna Evrópumótsins í Hollandi í júlí.

„Það er gaman, en það er erfitt. Maður er samt í þessu til þess að spila svo þetta er mjög skemmtilegt,“ sagði Sigrún Ella Einarsdóttir að lokum við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert