„Fagnaðarlæti næstu klukkutímana“

Stephany Mayor og Sandra María Jessen fagna fyrsta marki Söndru …
Stephany Mayor og Sandra María Jessen fagna fyrsta marki Söndru í sumar í síðustu umferð. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Eins og allir væntanlega sjá núna þá er titillinn það eina sem er í boði fyrir okkur,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, í samtali við mbl.is í kvöld eftir að liðið vann sinn sjöunda leik í röð í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. Norðankonur sóttu þá þrjú stig í greipar Stjörnunnar og unnu 3:1-sigur í Garðabænum.

„Þetta er alveg ólýsanlegt, þetta er svo mikil gleði. Fagnaðarlæti næstu klukkutímana hjá okkur. Búnar að vinna sjö leiki í röð og spila vel sem sýnir hversu gott lið við erum með,“ sagði Sandra, en Þór/KA er með fullt hús stiga á toppnum.

Sandra segir að það hafi ekki verið mikið sjokk að lenda undir strax á þriðju mínútu.

„Það var eiginlega bara gott. Við stjórnuðum fyrri hálfleiknum allan tímann eftir að þær skoruðu. Auðvitað vill maður ekki byrja á því að fá mark á sig en það kom ekki neitt annað til greina eftir það en að jafna og við gerðum það,“ sagði Sandra.

Sandra var sjálf í byrjunarliðinu í fyrsta sinn í sumar, en hún skaddaði krossband í hné í landsleik í mars og hefur batinn verið hreint ótrúlega hraður.

„Þetta er mjög ánægjulegt og mun fyrr en ég bjóst við. Kannski líka táknrænt þar sem þetta var 100. leikurinn minn fyrir Þór/KA, sem er mjög skemmtilegt. Ég mun eiga mjög góðar minningar frá honum og ég er ótrúlega stolt af mínu liði,“ sagði Sandra María Jessen við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert