„Strákarnir skömmuðu mig“

Kristján Guðmundsson gat fagnað flottum sigri á Fjölni í kvöld.
Kristján Guðmundsson gat fagnað flottum sigri á Fjölni í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjamenn unnu frábæran 5:0 sigur á Fjölnismönnum í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í dag. Liðið leiddi 3:0 í hálfleik og hefði í raun verið hægt að flauta til leiksloka þá. Gestirnir virtust ekki eiga nokkurn möguleika að komast framhjá vörn Eyjamanna sem var gríðarlega sterk.

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, var virkilega ánægður með úrslitin þegar blaðamaður mbl.is ræddi við hann eftir leik.

„Við erum mjög ánægðir með spilamennskuna, við nýttum færin mjög vel. Við fengum opin færi og nýttum þrjú af fjórum skotum á markið í fyrri hálfleik.“

Kristján vildi meina að helsti munurinn á spilamennsku liðsins í dag og gegn ÍA væri færanýtingin.

„Það má kannski segja það, við fáum betri færi og klárum þau af ásetningi.“

Fjölnismenn áttu alls ekki sinn besta leik í dag og fengu varla færi í leiknum.

„Við lögðum upp með að verjast á ákveðnum svæðum og það gekk alveg hrikalega vel upp. Eins og þú segir þá spilaði liðið bæði sóknar- og varnarleikinn mjög vel.“

ÍBV-liðið virðist vera að finna sig virkilega vel í 5-3-2 liðinu og hefur verið flott að sjá liðið spila kerfið undanfarið.

„Það sást á mannskapnum í fyrra undir lokin á mótinu og það hentar því mjög vel og maður sér að það er áfram þannig. Þetta er þróunin í fótboltaheiminum að liðin eru farin að spila þetta svona.“

Margir leikmenn sem hafa spilað lítið hlutverk í liðinu á tímabilinu spiluðu virkilega vel í leiknum í dag og er það mjög gott fyrir Kristján að sjá.

„Það er mjög mikilvægt að þeir fái að spila og finni það að það sé traust frá þjálfaranum að þeim sé treyst að spila svona mikilvæga leiki. Að sjálfsögðu þegar þeir spila svona vel gera þeir hressilegt tilkall til byrjunarliðssætis og það er það sem þeir gera, við sáum það á æfingum í vikunni að þeir voru tilbúnir í þennan leik, þessir sem að hafa verið fyrir utan. Þeir nýttu sénsinn mjög vel.“

Helst ég sem var æstur

Fjölnismenn reyndu nokkur mismunandi kerfi í leiknum en ekkert þeirra virtist henta vel gegn Eyjamönnum í dag.

„Við fylgdumst einmitt mjög vel með því, það hafði eiginlega engin áhrif. Við vorum með þetta þannig séð í hendi okkar. Þegar það er svona góð forysta þá er mikilvægt að halda einbeitingu, það var kannski helst ég sem var æstur að öskra á þá. Strákarnir skömmuðu mig fyrir það því þeir voru með þetta allt under control þannig ég biðst afsökunar.“

Jónas Þór Næs er meiddur og því ekki í hópnum í dag, ungur Eyjamaður Óskar Elías Zoega Óskarsson spilaði í hægri vængbakvarðarstöðunni í dag og gerði það virkilega vel.

„Þeir sem komu inn og hafa verið fyrir utan nýttu sénsinn mjög vel, nú þurfum við að velta því fyrir okkur hvernig við stillum upp liðinu fyrir sunnudaginn.“

Avni Pepa var einnig ekki í hóp í dag og mun Hafsteinn Briem vera í banni í leiknum gegn Val á sunnudaginn. Er Kristján með einhverjar fregnir af Avni fyrir leikinn gegn Val?

„Nei, ég hugsa að ég viti ekkert með hans ástand fyrr en á laugardaginn, við æfum á morgun og kannski kemur það í ljós þá, einhverjir af þeim koma kannski til baka,“ sagði Kristján um þá sem voru meiddir og utan hóps í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert