Þór/KA skaut bikarmeistara Blika úr leik

Þór/KA tryggði sér sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Borgunarbikarsins, eftir sigur á Breiðabliki í stórleik 16-liða úrslitanna í Kópavoginum í dag. Stephany Mayor skoraði þrennu fyrir Þór/KA sem vann 3:1 og ríkjandi meistarar Breiðabliks eru því úr leik.

Breiðablik var sterkari aðilinn framan af leik og hefði hæglega getað skorað tvö mörk en Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir í marki Þórs/KA var vel á verði. Það voru svo norðankonur sem komust yfir á 24. mínútu þegar Stephany Mayor skoraði með glæsilegu skoti upp í hornið eftir mistök í vörn Blika.

Aðeins andartökum fyrir hálfleiksflautið fékk Þór/KA svo vítaspyrnu þegar Hulda Ósk Jónsdóttir var felld í teignum. Stephany Mayor fór á punktinn og skoraði með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið. Staðan 2:0 fyrir Þór/KA í hálfleik.

Blikakonur mættu hins vegar mjög ákveðnar til leiks eftir hlé og uppskáru mark á 52. mínútu. Selma Sól Magnúsdóttir átti þá magnaða sendingu á Svövu Rós Guðmundsdóttur sem fór á harðaspretti inn í teiginn og lagði boltann í netið. Staðan 2:1 fyrir Þór/KA.

Blikar héldu áfram að pressa en Stephany Mayor var alveg sama um það. Hún fullkomnaði þrennu sína á 73. mínútu þegar skot hennar úr teignum fór í hægra hornið, en engin hætta virtist vera á ferðum í sókninni. Staðan 3:1 fyrir Þór/KA.

Það reyndust lokatölur leiksins og Þór/KA er því komið áfram í átta liða úrslit bikarsins en ríkjandi meistarar Breiðabliks eru úr leik.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma inn á vefinn hér síðar í kvöld.

Breiðablik 1:3 Þór/KA opna loka
90. mín. Leik lokið Þór/KA er komið áfram í átta liða úrslit bikarsins en ríkjandi meistarar Blika eru úr leik!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert