Þeir byrjuðu að tefja í fyrri hálfleik

Lárus Orri Sigurðsson
Lárus Orri Sigurðsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórs var vitaskuld ósáttur eftir 2:1 tap sinna manna gegn ÍR í Inkasso-deildinni í knattspyrnu í dag, 1. deild karla. Hann segir sína menn hafa verið mikið betri og það hefði verið skelfilegt ef leikurinn hefði endað með jafntefli, hvað þá tapi. 

„Ég veit ekki hvað skal segja eftir þetta. Það var bara eitt lið inni á vellinum í rétt rúmar 90 mínútur. Heimaliðið byrjaði að tefja leikinn strax í fyrri hálfleik og þeir áttu ekki færi í öllum leiknum þangað til þeir skora seinna markið. Það hefði verið skelfilegt að fara hérna með eitt stig og eiginlega fáránlegt að fara ekki með neitt."

„Jöfnunarmarkið þeirra er frábært skot lengst utan af velli. Í stöðunni 1:1 áttu menn að vera skynsamari og halda en við reynum að henda öllu á þá til að vinna, þá fáum við annað mark á okkur. Fótboltinn er svona stundum, hann er ekki sanngjarn."

Þór skoraði tvö mörk í leiknum sem voru dæmd af. Lárus var ekki sáttur við annað atvikið. 

„Ég tel mig hafa séð annað atvikið. Það var alltaf mark, en það þýðir ekki að dvelja við það. Við töpuðum ekki leiknum vegna dómaranna, við töpum honum því við kláruðum ekki leikinn. Þetta átti aldrei að vera leikur þegar það voru tíu mínútur eftir, við áttum að vera búnir að afgreiða þennan leik."

Þórsarar eru komnir í fallsæti eftir tapið. 

„Það er ekki gott að vera í fallsæti, það eru fimm leikir búnir og við erum með þrjú stig, það er ekki nógu gott," sagði Lárus Orri Sigurðsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert