„Það var ládeyða yfir okkur í fyrri hálfleik“

Sigurbjörn Hreiðarsson.
Sigurbjörn Hreiðarsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við byrjum leikinn mjög vel og skorum 1:0 strax í byrjun og vorum mjög ferskir. En síðan féllu þeir tilbaka og við fórum bara að rúlla boltanum á milli og það var ládeyða yfir þessu hjá okkur í fyrri hálfleik,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson aðstoðarþjálfari Vals eftir 2:1 sigur liðsins á ÍBV í dag.

Sjá frétt mbl.is: Valsmenn knúðu fram sigur gegn Eyjamönnum

„Þeir komu grimmari inn í leikinn Vestmannaeyingarnir. Þetta var þriðji leikurinn okkar á sjö dögum og það vantar kannski þetta „auka" í leik okkar en við gerðum nóg í dag.“

„Einhver myndi segja að það sé styrkleikamerki að ná í þrjú stig þótt við höfum ekki átt okkar besta leik. Einhver fróður maður sagði það eitt sinn,“ bætti Sigurbjörn við.

„Mér fannst við ekki byrja seinni hálfleikinn vel, en svo komum við inn af krafti um miðbik hálfleiksins og með skiptingunum okkar. Varamennirnir komu mjög sterkir inn í dag fyrir okkur. Sem betur fer erum við með mjög stóran og góðan hóp. En ÍBV hefði getað jafnað í restina en Anton Ari bjargar okkur,“ sagði Sigurbjörn.

Dion Acoff var ekki í hóp í dag vegna meiðsla en hann hefur verið frábær í upphafi móts. Hver er staðan á honum?

„Það var spurning hvort hann myndi ná þessum leik eða næsta og við ákváðum að vera ekki að gambla með hann í dag. Þegar hann spilaði var hann einn heitasti leikmaðurinn á Íslandi og það gefur auga leið að liðin taka á honum og þora þar af leiðandi að fara ekki of framalega á okkur. En við aðlögum okkur að því,“ svaraði Sigurbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert