Fæ kökk í hálsinn við að heyra þetta

Sif Atladóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir í leiknum í kvöld.
Sif Atladóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

„Mér fannst við halda þeim niðri og varnarleikurinn var flottur gegn þessu frábæra liði. Þetta er allt í réttri átt hjá okkur. Það var fínt að taka markalausan leik út núna. Við vitum að við erum að skapa færi og við klárum þau í næsta leik," sagði Sif Atladóttir, miðvörður íslenska landsliðsins í knattspyrnu eftir 1:0 tap gegn Brasilíu í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld. 

„Það eru forréttindi að fá að fá að spila með landsliðinu og fá að spila svona leiki. Ég þekki nokkra leikmenn hjá þeim og hef spilað á móti þeim í Svíþjóð og Mörtu sérstaklega. Það er alltaf gaman að spila á móti sterkum andstæðingum."

Hvað fannst Sif klikka í markinu hjá Brasilíu? 

„Þær eru frábærar í að sækja hratt og ég fer með varnarlínuna of aftarlega of hratt. Þetta eru gæðaleikmenn sem klára sín færi. Þetta er lærdómur fyrir okkur."

Sif gat verið ánægð með sína frammistöðu, enda með betri leikmönnum liðsins í kvöld.

„Ég held að ég hafi spilað þokkalegan leik heilt yfir. Ég tel mig sjálfa vera í hörkuformi fyrir EM. Ég hef spilað mikið með félagsliðinu og ég er full sjálfstrausts."

Ein besta vinkona Sifjar, Margrét Lára Viðarsdóttir verður ekki með á EM í Hollandi í sumar vegna meiðsla. 

„Þetta er erfitt, maður fær kökk í hálsinn við að heyra þetta, þetta er ein mín besta vinkona og þetta er erfitt," sagði Sif. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert