Sigurmark Mörtu í metleik í Laugardal

Brasilía sigraði Ísland, 1:0, í vináttulandsleik kvenna í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld en þetta var lokaleikur íslenska liðsins fyrir Evrópukeppnina í Hollandi þar sem liðið á sinn fyrsta leik 18. júlí.

Glæsilegt áhorfendamet var sett á kvennalandsleik á Laugardalsvelli en 7.521 áhorfandi var á leiknum og fyrra metið var bætt um tæplega 900 áhorfendur.

Marta, sem hefur fimm sinnum verið kjörin besta knattspyrnukona heims, skoraði sigurmarkið á 67. mínútu en það var hennar 108. mark í 118 landsleikjum fyrir Brasilíu.

Íslenska liðið byrjaði af miklum krafti og skapaði sér dauðafæri eftir aðeins 22 sekúndur. Agla María Albertsdóttir komst þá ein gegn Bárbara markverði eftir sendingu Katrínar Ásbjörnsdóttur en skaut beint á hana.

Íslensku leikmennirnir pressuðu oft framarlega, nýttu líkamlegan styrk sinn til að vinna boltann þar hvað eftir annað, og það gaf fleiri marktækifæri. Katrín Ásbjörnsdóttir skaut í varnarmann í markteignum eftir langt innkast Sifjar Atladóttur og skalla Söru Bjarkar Gunnarsdóttur á 22. mínútu. Þremur mínútum síðar komst Fanndís Friðriksdóttir innfyrir vörnina eftir sendingu frá Söru en skaut beint á markvörðinn.

Brasilía komst smám saman betur inn í leikinn og gerði harða hríð að marki Íslands á nokkurra mínútna kafla seint í fyrri hálfleik. Tamires komst ein gegn Guðbjörgu Gunnarsdóttur í markinu eftir frábæra sendingu frá Mörtu en Guðbjörg varði glæsilega með úthlaupi. Skömmu síðar komst Debinha í gott færi á miðjum vítateig Íslands en skaut rétt framhjá markinu.

Brasilía byrjaði seinni hálfleik vel og fékk tvö ágæt færi á upphafsmínútunum. Leikurinn jafnaðist fljótlega og á 58. mínútu skaut Rakel Hönnudóttir yfir markið úr ágætu færi í miðjum vítateig eftir eitt af mörgum löngum innköstum Sifjar sem sköpuðu oft usla.

Um miðjan hálfleikinn fékk Brasilía þrjú góð færi á stuttum tíma, Gabriela Nunes og Rosana skutu framhjá. Marta var hinsvegar örugg þegar hún fékk sendingu inn í vítateiginn vinstra megin og skoraði með því að senda boltann undir Guðbjörgu og í hornið fjær, 0:1, á 67. mínútu.

Rosana fékk opið en þröngt færi rétt á eftir þegar hún komst framhjá Guðbjörgu í vítateignum en Glódís Perla Viggósdóttir var vel staðsett og lokaði á skotið í markteignum.

Eftir því sem á leið var brasilíska liðið með öruggari tök á leiknum, lét boltann ganga hraðar og betur, og íslenska liðið komst í fáar afgerandi sóknir seinni hluta leiksins. Leikurinn fjaraði út á lokakaflanum og sigur Brasilíu var sanngjarn þegar upp var staðið.

Sigríður Lára Garðarsdóttir fékk sitt annað gula spjald í uppbótartíma leiksins og var þar með rekin af velli.

Ísland 0:1 Brasilía opna loka
90. mín. 4 mínútum bætt við
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert