Geta allir notað Ólaf Hrannar í fótbolta

Leiknismenn fagna marki í kvöld
Leiknismenn fagna marki í kvöld mbl.is/Golli

Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis, var að vonum svekktur eftir að hans menn glutruðu niður tveggja marka forystu undir lokin gegn Þrótti í 7. umferð Inkasso-deildarinnar í kvöld. Staðan var 3:1 fyrir Leikni allt fram á 85. mínútu þegar þeir Rafn Andri Haraldsson og Heiðar Geir Júlíusson skoruðu sitthvort markið og tryggðu heimamönnum stig, lokatölur 3:3.

„Maður er eðlilega svekktur. Við áttum mjög fínan fyrri hálfleik en ég get alveg viðurkennt það að Þróttarar voru betri í seinni hálfleik og áttu eitthvað skilið út úr þessu. Við hinsvegar komumst í 3:1 á 82. mínútu og þá er maður svekktur með að klára það ekki.“

Ólafur Hrannar Kristjánsson kom heimamönnum yfir strax á 4. mínútu en hann er uppalinn Leiknismaður og kom það Kristófer ekki á óvart að hann skyldi skora.

„Maðurinn sem skoraði þekkir okkur best en þetta gerist í fótbolta. Við unnum okkur vel út úr þessari byrjun og vorum fljótlega eftir það komnir 2:1 yfir.“

Ólafur rifti samning sínum við Leikni í síðasta mánuði og gekk til liðs við Þrótt en hann taldi sig ekki vera í myndinni hjá Kristófer fyrir komandi átök.

„Það geta allir notað Ólaf Hrannar í fótbolta,“ sagði Kristófer aðspurður um hvort hann hefði getað nýtt krafta hans í sumar.

„Við ætlum að taka þátt í toppbaráttunni, það er alveg tvímælalaust. Fyrsta deildin er bara þannig að það er ekkert gaman að taka ekki þátt í því að berjast um eitthvað,“ sagði hann að lokum en Leiknismenn sitja í sjötta sætinu með níu stig, sjö stigum frá toppliði Þróttar sem þeir mættu í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert