Erfiðasta liðið sem við gátum mætt

Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. Ljósmynd/Eva Björk Ægisdóttir

Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, hlakkar til að takast á við írska liðið Shamrock Rovers í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Fyrri leikur liðanna fer fram í Garðabænum á morgun. Hann segir liðin vera svipuð að getu. 

„Þetta er hörkulið, þeir eru mjög árásargjarnir og það er mikið tempó í þeirra leik. Þetta er klassískt breskt lið sem notast við langa bolta fram og reyna að vinna seinni boltann og fara í hlutina af miklum krafti. Þeir eru fljótir í pressu og við erum að mæta liði sem kemur á fullu gasi á móti okkur.“

„Liðin eru svipað sterk, þeir eru með sterka stráka þarna inni á milli. Á góðum degi eigum við að geta unnið þetta lið.“

„Þetta var sennilega erfiðasta liðið sem við gátum mætt en þetta er hagstæðasta ferðlagið. Það er gríðarlega spennandi að mæta þessu liði, þetta eru alltaf stærstu leikirnir, bæði fyrir félagið og leikmennina. Menn ættu að vera vel gíraðir í það.“

Um 100 stuðningsmenn Shamrock fylgja liðinu til Íslands. 

„Það eru einhverjir 100 írskir stuðningsmenn sem styðja sitt lið og það ættu að vera mikil læti hérna í okkar litlu stúku,“ sagði Rúnar Páll að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert