Ætlum að rífa okkur upp í seinni umferðinni

Ásdís Karen Halldórsdóttir.
Ásdís Karen Halldórsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum mjög góðar í 75 mínútur og svo dettum við niður í lokin og fáum á okkur þrjú mörk sem hefði ekki átt að gerast,“ sagði Ásdís Karen Halldórsdóttir, sóknarmaður KR, eftir 5:1 tap gegn Stjörnunni á heimavelli í 11. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu.

KR tók forystuna á 31. mínútu með góðu marki frá Ásdísi en tæpri mínútu síðar jafnaði Katrín Ásbjörnsdóttir metin fyrir gestina, hvað gerðist?

„Kannski vorum við of ánægðar, ég veit það ekki. Ef við dettum úr skipulagi í smá stund þá refsa þær, þær eru það góðar,“ sagði Ásdís Karen

Leikurinn var í jafnvægi í fyrri hálfleik en í þeim síðari tók Stjarnan öll völd á vellinum og keyrði yfir lánlaust lið KR en Ásdís var ekki ánægð með varnarleikinn.

„Við ætluðum að halda þessu og reyna að vinna. Svo skora þær og við dettum niður á völlinn og stuðningurinn í vörninni fer og þær setja þrjú mörk í viðbót,“ sagði Ásdís Karen

Ásdís var ein í framlínunni hjá KR í dag og virkaði oft einangruð í sóknarleik liðsins, fannst henni hún þurfa meiri aðstoð frá samherjum sínum?

„Maður getur sagt það en við erum að keppa við mjög gott lið og þá verðum við að spila góða vörn en auðvitað hefði það verið betra,“ sagði Ásdís Karen

KR hefur aðeins sótt sex stig úr þessum 11 leikjum sínum og segir Ásdís að liðið þurfi að bæta þá uppskeru: „Það er alls ekki nógu gott, við ætlum að rífa okkur upp í seinni umferðinni og taka fleiri stig,“ sagði Ásdís Karen

Pepsi-deild kvenna fer nú í langt frí vegna þátttöku Íslands á EM kvenna í Hollandi og segir Ásdís að fínt sé að taka smá hlé, þó það sé kannski of langt.

„Það er fínt að taka smá hlé núna en mánuður er kannski of mikið. Þetta er búið að vera mjög þétt álag núna og þá er kannski fínt að taka smá pásu,“ sagði Ásdís Karen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert