Menn voru orðnir æstir á bekknum

Grygg Ryder í leiknum í kvöld.
Grygg Ryder í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er gríðarlega ánægður, sérstaklega eftir síðustu helgi, við þurftum að koma til baka eftir það og við gerðum það hér í kvöld gegn einu besta liði deildarinnar,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari Þróttar eftir 1:0 sigur á toppliði Fylkis í 9. umferð Inkasso-deildar karla í knattspyrnu.

Þróttarar skoruðu eina mark leiksins eftir aðeins 20 sekúndur en Gregg var ánægður með að leikmenn sínir héldu einbeitingu eftir markið.

„Við héldum okkar striki og vorum rólegir eftir að hafa skorað. Við höfum skorað snemma í síðustu tveimur leikjum án þess að vinna þá þannig að það var mikilvægt að halda einbeitingunni í kvöld og við gerðum það.“

Fylkir er á toppi deildarinnar og hafði aðeins tapað einum leik fyrir viðureign kvöldsins en Gregg var afar ánægður með sitt lið og fannst sigurinn verðskuldaður.

„Við erum virkilega ánægðir með að hafa unnið mjög sterkt lið en mér fannst það líka algjörlega verðskuldað. Þeir voru mikið með boltann en það var hluti af okkar áætlun sem við framkvæmdum frábærlega.“

Þrátt fyrir að hafa séð mikið af boltanum áttu Fylkismenn í erfiðleikum með að skapa sér opin marktækifæri en Gregg segir að hann og þjálfarateymi sitt hafi farið vel yfir leikstíl andstæðinganna fyrir leikinn.

„Við greindum þeirra leik vel, eins og við gerum fyrir alla leiki, og stilltum upp því leikplani sem okkur fannst líklegast til árangurs.“

Mikill hiti var í mönnum á varamannabekkjunum og þurfti annar aðstoðardómarinn að grípa inn í á tímabili og biðja menn um að stilla sig en Gregg hrósaði dómgæslu kvöldsins í hástert.

„Ég hef gagnrýnt dómara, sérstaklega eftir síðustu tvo leiki, en ég verð að segja að Helgi átti frábæran leik. Þetta var erfiður leikur fyrir dómarana og menn á báðum varamannabekkjum voru orðnir dálítið æstir. Þetta var spennuþrunginn leikur og það voru margir áhorfendur en dómararnir höndluðu það virkilega vel og ég vona að það verði þannig í öllum leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert