Það þarf að gera eitthvað í þessu

Kristinn Ingi Halldórsson í dauðafæri við mark Ventspils í fyrri …
Kristinn Ingi Halldórsson í dauðafæri við mark Ventspils í fyrri hálfleiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er afar ánægður með leik liðsins í kvöld og tel að við höfum verið mun sterkari aðilinn þegar litið er á báða leikina gegn Lettunum,“ sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals við mbl.is eftir sigurinn á Ventspils, 1:0, í Evrópudeildinni í knattspyrnu á Hlíðarenda í kvöld.

Valur vann þar með einvígið 1:0 og mætir Domzale frá Slóveníu í 2. umferð tvo næstu fimmtudaga.

Ólafur er orðinn sá íslenski þjálfari sem á lengstan feril að baki í Evrópukeppni en hann stýrði fyrst liði í Evrópukeppni fyrir 27 árum. Þetta var hans 24. leikur sem þjálfari í Evrópukeppni og aðeins Heimir Guðjónsson á fleiri slíka leiki að baki.

„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleiknum og gerðum allt nema skora. Það var synd að við skyldum ekki skora tvö eða þrjú mörk því við fengum svo sannarlega færin til þess. Ég var ekkert orðinn smeykur, það voru enn þá 20 mínútur eftir þegar sigurmarkið kom og ég var alltaf fullviss um að við myndum ná að skora. En ég hefði frekar viljað fá mark en rauða spjaldið þegar markmaðurinn braut á Kristni Inga. Það hefði verið betra að komast í 2:0 en að verða manni fleiri,“ sagði Ólafur.

Nú bíður Valsliðsins talsvert leikjaálag, deildarleikur við Stjörnuna á sunnudag, leikur við Domzale á fimmtudag, Víking R. á sunnudegi og útileikur við Domzale á fimmtudeginum þar á eftir. Leikdagar Vals á næstunni eru 9., 13., 16., 20. og 23. júlí eða fimm leikir á hálfum mánuði.

„Þetta er mjög erfitt fyrir liðin þegar þau lenda í svona álagi í kringum Evrópuleikina og KSÍ verður að fara að gera eitthvað í þessu. Það er vel hægt og ég er viss um að viljinn til þess er fyrir hendi,“ sagði Ólafur Jóhannesson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert