Þriðji leikmaðurinn yfirgefur Ólafsvík

Mirza Mujcic í leik með Víkingi Ólafsvík gegn Grindavík fyrr …
Mirza Mujcic í leik með Víkingi Ólafsvík gegn Grindavík fyrr í sumar. Ljósmynd/Víkurfréttir

Sænski varnarmaðurinn Mirza Mujcic hefur yfirgefið herbúðir Víkings Ólafsvíkur sem leikur í efstu deild karla í knattspyrnu. Mujcic hefur glímt við meiðsli undanfarið og hæpið er að hann hefði getað snúið aftur inn á knattspyrnuvöllinn fyrir lok tímabilsins. Ejub Purisevic, þjálfari Víkings, staðfesti þetta í samtali við mbl.is eftir sigur liðsins gegn FH í gærkvöldi. 

Áður hafði Víkingur komast að samkomulagi við spænska miðjumanninn Alonso Sánchez um starfslok hans hjá félaginu. Þá sneri varnarmaðurinn Hörður Ingi Gunnarsson til baka til FH á dögunum eftir að hafa verið á láni hjá Víkingi frá því í maí síðastliðnum.

Ejub sagði enn fremur í samtalinu við blaðamann mbl.is að Víkingur hefði hug á því að fá leikmenn til félagsins í félagaskiptaglugganum sem opnar 15. júlí næstkomandi til þess að fylla þau skörð sem höggvin hafa verið í leikmannahóp liðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert