Það var ólga í belgnum á honum

Logi Ólafsson, þjálfari Víkings.
Logi Ólafsson, þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mest upptekinn af okkur sjálfum og mér fannst við ekki nógu góðir í fyrri hálfleik. Við vorum ekki nógu samtaka í því sem við höfum verið að tala um og æfa,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, eftir 1:1 jafntefli gegn Skagamönnum á útivelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Við vorum á hálfri ferð að mér fannst. Þeir ná marki eftir skyndisókn, það var klaufalegt af okkar hálfu. Sem betur fer náðum við að jafna leikinn.“

Skagamenn sköpuðu sér færi til að tryggja sér sigurinn undir lokin og þá sérstaklega Arnar Már Guðjónsson. 

„Þegar við þurfum að jafna leikinn þá er það á kostnað einhvers. Venjulega spilum við góðan varnarleik, en þegar við þurfum að sækja meira þá getur tognað á þessu. Þeir fá einhver færi og ég man best eftir færi sem Arnar Már fékk í lokin, en Róbert varði vel.“

Vladimir Tufegdzic var tekinn af velli í upphafi seinni hálfleiks. Hann átti ekki sinn besta dag og Logi var með skýringar á því. 

„Hann er veikur, hann var með ælupest og eitthvað slíkt og það var ólga í belgnum á honum.“

Geoffrey Castillion spilaði sinn fyrsta deildarleik síðan í maí, en hann hefur verið að glíma við meiðsli. Hann náði ekki að ógna marki Skagamanna mikið í kvöld. 

„Hann er mjög sterkur og hann mun reynast okkur vel. Hann er ekki í mikilli æfingu og þetta er annar leikurinn sem hann spilar í einhverjar 5-6 vikur. Hann er ekki alveg upp á sitt besta.“

Skagamenn voru ósáttir við jöfnunarmark Víkinga, en Logi sá ekki neitt athugavert við atvikið. 

„Ég veit það ekki, það má vel vera að það hafi verið aukaspyrna, en ég sá ekki neitt athugavert við það.“

En ætlar Logi að fá liðsstyrk þegar félagsskiptaglugginn opnar um helgina? 

„Það hefur ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Við munum sjá til hvað hin félögin ætla að gera og hverjir losna o.s.frv.“

Veigar Páll Gunnarsson var lánaður til Víkings frá FH fyrir helgi. Hann gæti leikið með Víkingum í næsta leik. 

„Hann verður löglegur í næsta leik. Hann er búinn að æfa vel með FH og hann er búinn að æfa þrisvar með okkur. Ég á von á að hann verði tilbúinn í næstu viku,“ sagði Logi að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert