Ánægðir með að vera bestir í Laugardalnum

„Það er alltaf gaman að vinna Fram, þetta er grannaslagur og við erum ánægðir með að vera bestir í Laugardalnum,“ sagði sigurreifur Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, við blaðamann mbl eftir 2:1 sigur gegn Fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

„Ég er líka ánægður með síðustu þrjá leiki gegn Fylki, Selfossi og Fram. Sjö stig í þeim leikjum er vel ásættanlegt.“

Fram var að spila aðeins sinn annan leik undir stjórn nýs þjálfara og hefur liðið m.a. breytt um leikkerfi nýlega, hafði það áhrif á undirbúninginn hjá Þrótti?

„Við horfðum á þá spila gegn Keflavík og við vissum að þeir spila 5-3-2. Þjálfarinn þeirra spilaði svona í Portúgal og við vissum hvernig föst leikatriði þeir myndu reyna þannig að við gátum undirbúið okkur vel.“

„Þeir eru skyndisóknalið sem sækir hratt þegar það vinnur boltann og það gekk vel hjá þeim í fyrri hálfleik en við gerðum líka sjálfum okkur erfitt fyrir.“

Fram komst yfir snemma í fyrri hálfleik þrátt fyrir að Þróttur hafi verið með boltann meginþorrann af leiknum en Ryder hafði ekki miklar áhyggjur af því.

„Ég hafði ekki áhyggjur en það pirraði mig. Við misstum einbeitinguna og gerðum óþarfa mistök en við erum lið sem skorar mörk og Viktor skoraði aftur, það eru mörk í liðinu okkar.“

Viktor Jónsson skoraði bæði mörk heimamanna og hrósaði Ryder honum í hástert.

„Hann elskar að vera hérna og við elskum að hafa hann. Við spilum kerfi sem hentar honum vel og hann stendur sig vel, við erum með góða framherja og mikla samkeppni um stöður.“

„Við höfum spilað þrjá leiki á átta dögum og liðið hefur lagt mikið á sig, ég er stoltur af þeim og hæstánægður með að vinna Fram,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert