Stundum eru sigrar bara ljótir

Emil Ásmundsson reynir skot að marki ÍR í leiknum í …
Emil Ásmundsson reynir skot að marki ÍR í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum átt betri leiki en þetta en stundum þurfa sigrar bara að vera ljótir,“ sagði Emil Ásmundsson sem skoraði fyrir Fylki í 2:1 sigri á ÍR í Breiðholtinu í kvöld þegar leikið var í 1. deild karla, Inkasso-deildinni. Hitt mark Fylkis var sjálfsmark.

Emil varð samt að yfirgefa völlinn eftir hálftíma vegna meiðsla. „Ég fann til aftan á lærinu en svo jókst það og á einum tímapunkti áttaði ég mig á að ég var tognaður aftan á læri, þurfti að játa mig sigraðan og gat ekki haldið áfram út af sársauka. Við sigldum þessu heim svona, skoruðum samt tvö mörk, hefðum getað bætt við mörkum í síðari hálfleik þegar við hittum í slána og klúðrum dauðafærum en ÍR-ingar komu sterkir til leiks og við verðum að gefa þeim það, þetta er hörkulið,“ bætti Emil við.

Óragur við að fá ferskar lappir

„Við byrjuðum illa og þrátt fyrir það komumst við yfir,“  sagði Helgi Sigurðsson, einn af þjálfurum Fylkis, eftir sigurinn á ÍR í kvöld en samt ánægður með sína menn. „Menn voru langt frá mótherjunum og ÍR-ingar unnu, fyrir minn smekk, of mikið af tæklingum og skallaboltum.  Það var hins vegar allt annað lið sem kom út hjá okkur í seinni hálfleik og mér fannst að við ættum að bæta við.“

„Við komum á erfiðan útivöll og vissum að við þyrftum að hafa fyrir sigrinum.  Við vissum að þeir kæmu dýrvitlausir en af einhverjum ástæðum vorum við ekki klárir í það, vorum hins vegar ótrúlega seigir að vinna leikinn því það er ekki gefið að koma hingað og vinna leik. ÍR er með hörkulið, hafa sýnt það í sumar og voru síst verri í leiknum svo það hefði getað orðið jafntefli en sem betur fer höfðum við heppnina með okkur í dag.“ 

Þjálfarar Fylkis gerðu fjórar breytingar frá síðasta leik. „Það hefur verið mikið álag á okkur, höfum spilað á fjögurra daga fresti í hátt í þrjár vikur og auðvitað getum við ekki alltaf spilað fallega knattspyrnu. Það er gott að eiga góðan hóp og ég hef verið óragur að gera breytingar, menn koma inn og standa sig og við fáum þannig ferskar lappir. Nú missum við Emil Ásmundsson í næsta leik og um tíma auk þess að Davíð Ásbjörnsson er meiddur. Við erum sem betur fer með góðan hóp og verðum að átta okkur á að þessi deild er þannig að þú verður bara að safna stigum. Eftir tvo til þrjá daga man enginn hvernig leikurinn vannst, það komu þrjú stig í hús eins og við sóttumst eftir,“ bætti Helgi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert