„Varla hægt að teikna fyrsta leik betur upp“

Marinó Axel Helgason í baráttu við tvo KA-menn.
Marinó Axel Helgason í baráttu við tvo KA-menn. Ljósmynd/Benóný Þórhallsson

„Ég er enn að melta þetta en það er ljóst að það hefði varla verið hægt að teikna betur upp þennan fyrsta leik minn í byrjunarliði í þessari deild,“ sagði Marinó Axel Helgason, tvítugur knattspyrnumaður úr Grindavík, sem sló í gegn í sigurleik liðsins gegn KA í Pepsi-deild karla á sunnudaginn.

Hann kom þá inn í liðið og lét mikið að sér kveða, skoraði jöfnunarmark Grindavíkur, 1:1, og krækti síðan í vítaspyrnu undir lok leiksins en úr henni skoraði Andri Rúnar Bjarnason sigurmarkið, sem þýðir að Grindavík og Valur eru jöfn á toppi deildarinnar eftir 10 umferðir.

Marinó sagði að Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, hefði búið sig vel undir hlutverkið en hann lék sem vængbakvörður vinstra megin, í leikaðferðinni 5-3-2. „Ég kom snemma inná í leiknum við Breiðablik þegar Hákon Ívar meiddist, og síðan vorum við með tvo leikmenn í banni. Óli talaði við mig snemma í vikunni og sagði mér að ég yrði í liðinu svo ég hafði góðan tíma til undirbúnings. Ég var oft í byrjunarliðinu í 1. deildinni fyrir tveimur árum, spilaði þá á miðjunni með snilldarsamherjum, Alex Frey Hilmarssyni og Scottie Ramsay, sem var frábær reynsla. Ég lít á mig sem miðjumann að upplagi en ég hef spilað á báðum köntunum og það er gott að eiga fleiri vopn í vopnabúrinu.“

Marinó sagði að það hefði hinsvegar ekki verið sérstaklega undirbúið að hann tæki eins mikinn þátt í sóknarleiknum og raun bar vitni.

Átti að vera varnarsinnaður

„Nei, ég átti að vera frekar varnarsinnaður þarna vinstra megin en svo spilaðist leikurinn þannig að ég fór meira inní vítateiginn en til stóð. Ég fékk geðveika sendingu frá Andra þegar ég skoraði, og síðan var vítaspyrnan sem ég fékk aldrei nein spurning. Það var allan daginn réttur dómur,“ sagði Marinó og bað um að það kæmi fram að þó hann hefði fagnað marki sínu eins og Everton-maðurinn fyrrverandi Tim Cahill og talað um stuðning við Everton í viðtali eftir leik, þá væri hann fyrst og fremst stuðningsmaður Leeds í enska boltanum!

Sjá allt viðtalið við Marinó í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag þar sem einnig er að finna lið 10. umferðar, stöðuna í M-gjöfinni og ýmsan fróðleik um umferðina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert