Þægilegra fyrir dómarann að gera ekkert

Sigurður Egill Lárusson skorar mark Valsmanna úr vítaspyrnu í kvöld.
Sigurður Egill Lárusson skorar mark Valsmanna úr vítaspyrnu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er svekkjandi, ég er sérstaklega svekktur að fá á mig tvö mörk, það svíður,“ sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals, eftir 2:1 tap gegn slóvenska liðinu Domzale í forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í kvöld. 

Ólafi fannst ekki mikill munur á liðunum í kvöld og var hann ósáttur við mörkin sem Valsmenn fengu á sig. 

„Mér fannst ekki mikill getumunur á liðunum, við áttum í fullu tré við þessa leikmenn og líkamlegur styrkur okkar var meira en þeirra. Þeir eru hins vegar góðir á boltanum og með fleiri leikmenn sem eru yfirvegaðir þegar þeir eru með boltann.“

„Við fáum á okkur tvö mörk. Annað þeirra er víti og hitt er skallamark þar sem minnsti maðurinn inni í teig skorar, við áttum að verjast því betur. Þetta var einbeitingarleysi í þessum mörkum.“

Ólafur treysti dómara leiksins fyrir því að vítaspyrnudómurinn í sigurmarki Domzale hafi verið réttur. Hann var hins vegar ekki sáttur við tæklingu Jure Matjasic á Hauki Páli Sigurðssyni. Matjasic var á gulu spjaldi og fór mjög harkalega í Hauk. 

„Ég sé ekki hvað gerðist í vítinu sem við fáum á okkur, það var það langt frá mér. Víti er stærsta ákvörðun sem dómarinn tekur, þá hlýtur hann að vera 100%, ég verð að treysta því,“ sagði hann um vítið áður en hann hélt áfram um dómarann. „Leikmaðurinn fór hins vegar í Hauk og hann var á gulu. Þá er oft þægilegra fyrir dómarann að gera ekki neitt.“

Hann er nokkuð brattur fyrir seinni leikinn í Slóveníu. 

„Það verður mjög erfitt, en við förum fullir sjálfstrausts og ætlum að standa okkur vel þar,“ sagði Ólafur að lokum. 

Ólafur Jóhannesson.
Ólafur Jóhannesson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert