Leiknir með óvæntan sigur í Keflavík

Tómas Óli Garðarsson skoraði sigurmark Leiknis.
Tómas Óli Garðarsson skoraði sigurmark Leiknis. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Leiknir R. vann óvæntan sigur á Keflavík á útivelli í Inkasso-deildinni, 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Ingvar Ábjörn Ingvarsson kom Leikni í 1:0 á 24. mínútu en Jeppe Hansen jafnaði á 57. mínútu. Tómas Óli Garðarsson skoraði hins vegar sigurmark Leiknis á 66. mínútu. Keflvíkingar hefðu tekið toppsætið með sigri, en Fylkir er enn á toppnum eftir úrslit dagsins. Leiknir er um miðja deild. 

Á Laugardalsvelli vann HK 3:2 sigur á Fram. Bjarni Gunnarsson kom HK yfir úr víti en Simon Smidt jafnaði fyrir Fram á 39. mínútu, bein úr aukaspyrnu. Ásgeir Marteinsson kom HK aftur yfir á 50. mínútu en aftur jafnaði Fram, nú á 57. mínútu með marki Guðmundar Magnússonar. HK-ingar komust hins vegar yfir í þriðja skiptið í uppbótartíma er Brynjar Jónasson tryggði þeim sigurinn. Pedro Hipólító hefur tapað öllum þremur leikjum sínum sem þjálfari Fram. Liðin eru í 8. og 9. sæti með 15 stig. 

Selfoss vann svo 3:1 sigur á ÍR á útivelli. Óskar Jónsson kom ÍR yfir á 8. mínútu en þeir Elvar Ingi Vignisson, Andy Pew og Ivan Gurierrez skoruðu allir fyrir Selfoss í seinni hálfleik. Síðustu tvö mörkin komu bæði í uppbótartíma. Selfoss er í 5. sæti með 18 stig en ÍR í 10. sæti með 11 stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert