Strákarnir sýndu mikla fagmennsku

Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég neita því ekki að það var aðeins farið að fara um mann og sérstaklega eftir að Bergsveinn skallaði yfir markið úr mjög góðu færi en strákarnir sýndu mikla fagmennsku og unnu leikinn verðskuldað,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH við mbl.is eftir sigurinn gegn Víkingi frá Götu í Meistaradeild Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

„Við ræddum vel um það fyrir leikinn að við yrðum að vera þolinmóðir og við þurftum svo sannarlega að vera það eins og leikurinn spilaðist. Með þolinmæði og góðri frammistöðu tókst okkur ætlunarverkið og við erum auðvitað mjög ánægðir. Við vissum alveg að leikmenn Víkings myndu liggja aftarlega á vellinum og hugsa fyrst um að verja mark sitt. Þeir spiluðu leikinn nánast alveg eins og þeir gerðu í Krikanum og fyrst þeim tókst að skora þar þá þurftu þeir ekkert að breyta leikskipulagi sínu þrátt fyrir að vera á heimavelli. Mér fannst leikur okkar betri í kvöld heldur en í Kaplakrika og það var virkilega fínt,“ sagði Heimir Guðjónsson við mbl.is.

„Ég verð að hrósa liði Víkings í Götu. Þetta er vel skipulagt og gott lið og frammistaða liðsins í Evrópukeppninni á undanförnum árum er sönnun þess. Leikmenn liðsins eru grjótharðir og skilja allt eftir á vellinum. Það er ekkert auðvelt að vinna svona lið,“ sagði Heimir.

Andstæðingur FH í 3. umferðinni verður Mari­bor frá Slóven­íu eða Zr­injski frá Bosn­íu. Mariobor vann fyrri leikinn á útivelli og þar er líklegra að slóvensku meistararnir verði næsti mótherji Íslandsmeistaranna.

„Mér skilst að Zr­injski hafi verið töluvert betra liðið í fyrri leiknum en fyrst Maribor vann á útivelli þá geri ég ráð fyrir því að við mætum því liði.

„Við teljum að við eigum möguleika á móti Maribor ef við náum tveimur heilsteyptum leikjum. Nú hefst undirbúningur fyrir leikinn á móti ÍA sem fram fer um næstu helgi. Við eigum verk að vinna í deildinni,“ sagði Heimir, sem var á leið heims til foreldra Gunnars Nielsen markvarðar FH og færeyska landsliðsins ásamt lærisveinum sínum en þau búa á móti Tórsvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert