„Við jörðuðum Grindavík í kvöld“

Hilmar Árni Halldórsson á leið framhjá tveimur Grindvíkingum í leiknum …
Hilmar Árni Halldórsson á leið framhjá tveimur Grindvíkingum í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við erum hrikalega sterkir í föstum leikatriðum og sýndum það í kvöld. Við jörðuðum Grindavík. Það er bara þannig. Með fullri virðingu fyrir þeim þá vorum við bara betri í dag,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir 5:0-sigur á Grindavík í Pepsi-deild karla í kvöld. Stjarnan og Grindavík höfðu því sætaskipti og eru Stjörnumenn nú í 2. sætinu en Grindavík í þriðja.

„Ég er gríðarlega ánægður með þennan leik. Hann var góður í alla staði. Við spiluðum varnarleikinn feikivel. En Grindvíkingar voru hættulegir. Þeir freistuðu þess að beita skyndisóknum og fengu 1-2 upphlaup í fyrri hálfleik en engin færi upp úr því. Við máttum ekki sofna á verðinum þótt við stjórnuðum leiknum og værum mikið með boltann. Við náðum að stjórna leiknum betur í seinni hálfleik og settum frábær mörk,“ sagði Rúnar Páll.

Aðspurður hvort hann hefði búist við Grindvíkingum beittari, sér í lagi eftir tap þeirra gegn Fjölni í síðustu umferð, sagði Rúnar:

„Ég var ekkert að pæla í því hvernig þeir myndu koma inn í þennan leik. Við þurftum að pæla í okkur sjálfum. Við gerðum það sem við erum góðir í og vildum einblína á okkar leik.“

Stjarnan kláraði leikinn með þrennu Guðjóns Baldvinssonar í seinni hálfleik. Hvað sagði Rúnar við þá í hálfleik?

„Við þurftum að stjórna leiknum betur og passa að fá ekki á okkur skyndisóknir. Brjóta strax niður þeirra spil þegar við töpum boltanum. Það var punktur númer eitt í hálfleik.“

Stjarnan var með aðeins sex varamenn á bekknum í dag og það vantaði nokkra leikmenn vegna meiðsla. Hver er staðan á þeim?

Kristófer Konráðsson fékk höfuðhögg í vikunni og gat ekki spilað. Ólafur Karl [Finsen] er í ákveðnu ferli með ökklann og þarf að hvíla í tvær vikur. Svo kom í ljós seint í dag að Brynjar Gauti gat ekki spilað og við höfðum ekki tíma til að kalla annan leikmann inn og því vorum við færri á bekknum en vanalega,“ sagði Rúnar Páll að lokum.

Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Dave Lee
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert