Vorum á hælunum allan tímann

Aron Bjarki Jósepsson og Geoffrey Castillion í leiknum í kvöld.
Aron Bjarki Jósepsson og Geoffrey Castillion í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við getum ekki leyft okkur að gefa tvö mörk snemma í fyrri hálfleik, það er þar sem við töpum leiknum,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., eftir 3:0 tap gegn KR á heimavelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Við vitum að KR er með gott lið og það var tímaspursmál hvenær þeir færu að landa svona sigrum. Ég tel að við höfum hjálpað þeim allt of mikið í dag og við gáfum þeim fyrstu tvö mörkin. Þriðja markið kom eftir að við freistum þess að koma fram og jafna leikinn en það eru tvö fyrstu mörkin sem fella okkur.“

Logi viðurkennir að betra liðið hafi unnið í kvöld. 

„Við lendum undir og erum í vandræðum og vorum hreinlega slakir. Fyrir utan það að við gáfum mörk þá vorum við á hælunum allan tímann og á eftir í öllum aðgerðum og þeir einfaldlega betri en við.“

„Við vorum aðeins hressari í seinni hálfleik og ég ætla ekki að dæma um hvort 3:0 séu sanngjörn úrslit. KR-ingar sköpuðu sér ekki mikið fyrir utan mörkin. Þegar þú ert 2:0 yfir þá er staðan hugguleg.“

„Við fengum besta færi leiksins áður en þeir skora og það breytt stöðunni töluvert. Það voru einhverjar tilraunir í byrjun seinni hálfleiks til að jafna leikinn en þegar öllu er á botninn hvolft var þetta lélegt.“

Eftir góða byrjun hjá Loga hjá Víkingi hefur liðið tapað síðustu tveimur leikjum. 

„Það er jafnstutt upp og það er niður. Það hefur hvorki verið fallbarátta né toppbarátta hjá okkur og það er stutt á milli alls staðar. Við vorum aldrei að ræða neina Evrópubaráttu,“ sagði Logi að lokum. 

Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert