Valur með sex stiga forskot á toppnum

Valsmenn fagna eftir að hafa komist yfir í Ólafsvík í …
Valsmenn fagna eftir að hafa komist yfir í Ólafsvík í kvöld. mbl.is/Alfons

Valur er með sex stiga forskot á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir 2:1 sigur á Víkingi Ó. í 12. umferðinni í Ólafsvík í kvöld. Patrick Pedersen skoraði sigurmarkið með glæsilegu skoti í upphafi seinni hálfleiks. 

Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og fengu nokkur mjög góð færi á fyrstu 20 mínútunum. Á 5. mínútu átti Bjarni Ólafur Eiríksson mjög góða tilraun úr aukaspyrnu sem Christian Martinez varði vel í markinu og tíu mínútum síðar átti Andri Adolphsson hörkuskot í slána. Örfáum augnablikum síðar átti Eiður Aron Sigurbjörnsson fastan skalla í slá og Víkingar náðu að bjarga tilraun Guðjóns Péturs Lýðssonar í kjölfarið á línu.

Markið kom loks á 24. mínútu. Guðjón Pétur Lýðsson skoraði þá af stuttu færi eftir langt innkast frá Sigurði Agli Lárussyni og tveimur mínútum síðar kom Nicolas Bögild boltanum í netið, en hann var dæmdur rangstæður.

Eftir það komust Víkingar meira inn í leikinn og á 34. mínútu komst Guðmundur Steinn Hafsteinsson í mjög gott færi en skotið hans af stuttu færi fór rétt framhjá. Mínútu síðar átti Eric Kwakwa gott skot utan teigs sem fór hárfínt framhjá. Víkingar jöfnuðu svo leikinn á 38. mínútu. Christian Martinez átti þá langt útspark sem Eiður Aron átti í vandræðum með að koma í burtu, Guðmundur Steinn nýtti sér það vel og skoraði framhjá Antoni Ara sem var illa staðsettur í marki Vals. Það reyndist síðasta færið í skemmtilegum fyrri hálfleik og var staðan í leikhléi því 1:1.

Valsmenn byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel og Patrick Pedersen kom þeim aftur yfir eftir fjórar mínútur af honum. Hann kláraði þá með glæsilegu skoti eftir mistök Nacho Herras í vörn Víkings. Eftir það róaðist leikurinn nokkuð og hvorugt liðið var sérlega líklegt til að skora á löngum köflum í hálfleiknum. Patrick Pedersen var nálægt því að skora sitt annað mark, átta mínútum fyrir leiksloks, en skotið hans af stuttu færi fór í stöngina. Það reyndist síðasta tækifæri leiksins og Valsmenn fóru með sigur af hólmi. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Víkingur Ó. 1:2 Valur opna loka
90. mín. Fimm mínútum bætt við.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert