Ég vissi það ekki einu sinni

„Þetta var góður sigur og fagmannleg frammistaða. Allir leikir eru stórir núna og ég er ánægður að við sóttum þrjú stig,“ sagði Gregg Ryder, þjálfari Þróttar, eftir 2:0 sigur á Gróttu í 15. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu á Eimskipsvellinum í kvöld.

„Mér finnst frammistaða okkar almennt vera í samræmi við gæði liðsins, við höfum aðeins tapað þremur leikjum og ég er almennt mjög ánægður. Við þurfum að lagfæra lítil mistök hér og þar en ég er ánægður með hvar við erum.“

Ryder gerði nokkrar breytingar frá síðasta leik, sem var 2:0 tap gegn Þór, og voru Sveinbjörn Jónasson og Heiðar Geir Júlíusson í byrjunarliðinu en þeir hafa báðir þurft að þola mikla bekkjarsetu í sumar.

„Við erum með mikla samkeppni í leikmannahópnum og eftir leikinn gegn Þór fannst mér við þurfa að breyta aðeins til og hrista upp í liðinu. Þessir leikmenn sem þú nefndir komu inn og spiluðu vel í dag, þetta er liðskeppni og við erum að reyna komast upp um deild, þú verður að nota alla og allir mínir leikmenn eru nógu góðir eins og þeir sýndu í dag.“

Vilhjálmur Pálmason skoraði frábært einstaklingsmark þegar hann lék framhjá þremur varnarmönnum áður en hann afgreiddi boltann í netið, hversu mikilvægt er hans framlag?

„Hann hefur átt mjög gott sumar og við höfum verið að tala við hann og hina vængmennina um að við þurfum fleiri mörk frá þeim og í dag gerði hann mjög vel.“

Fylkir tapaði í kvöld og tókst Þrótti því að jafna við þá á stigum í 2. sæti deildarinnar, gefur það Þrótturum byr undir báða vængi?

„Ég vissi það ekki einu sinni, það skiptir ekki máli. Við hugsum bara um okkur og svo sjáum við til hvað gerist í lokin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert