Hefði fyrirfram verið sáttur við eitt stig

Arnar Freyr Ólafsson varði víti gegn Fylki í kvöld.
Arnar Freyr Ólafsson varði víti gegn Fylki í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég hefði fyrirfram verið sáttur við að fá eitt stig hér í dag en strákarnir lögðu ótrúlega mikið á sig til að ná þessum sigri og ég get ekki hrósað þeim nóg fyrir frammistöðu þeirra í dag,“  sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari HK eftir 1:0 sigur á Fylki í Árbænum í kvöld þegar 15. umferð 1. deildar karla, Inkasso-deildarinnar, hófst.

„Við ætluðum að gera allt i okkar valdi að trufla þá og það heppnaðist, við skorum frábært mark snemma í leiknum.  Stigin sem við fengum í dag voru mikilvæg, það er frábært að koma hingað og spila við hörkulið Fylkis og vonum framar að vinna leikinn.“

Þegar leið á leikinn tókst HK-mönnum að loka fyrir allar tilraunir Fylkis og voru oftast gríðarlega vel skipulagðir, sem þjálfarinn var eðlilega sáttur við. „Við reyndum að leggja upp ákveðna hluti, að stoppa þá í að spila boltanum og þétta öll svæðin á okkar vallarhelming til að passa uppá það.  Við vitum að Fylkir er með hæfileikaríka einstaklinga en ætluðum að gefa þeim lítinn tíma og lítið pláss.  Það heppnaðist og þegar upp var staðið reyndu Fylkismenn mikið af löngum sendingum til að reyna opna vörn okkar en okkur tókst að taka á því og ég var mjög sáttur við varnarvinnu okkar, alveg frá fremsta manni til þess aftasta.“

Fylkir fékk tækifæri til að jafna en Arnar Freyr Ólafsson varði gott vítaskot Daða Ólafssonar.   „Ég hef trú á að dómarinn hafi haft rétt fyrir, eins og í flestum tilfellum í dag og hann dæmdi vel.  Ætli þetta hafi ekki verið víti en Arnar Freyr er frábær markmaður og stóð sig eins og hetja í dag, frábært að hann skyldi verja vítið,“ bætti þjálfarinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert