Markalaust hjá erkifjendunum

Pálmi Rafn Pálmason og Guðjón Pétur Lýðsson í leiknum í …
Pálmi Rafn Pálmason og Guðjón Pétur Lýðsson í leiknum í kvöld. Haukur Páll Sigurðsson fylgist með í fjarska. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

KR og Valur gerðu markalaust jafntefli þegar liðin mættust í Reykjavíkurslag í 15. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildinni, á Alvogen-vellinum í kvöld.

Liðin skiptust á að vera sterkari aðilinn í þessum leik og jafntefli því heilt yfir sanngjörn niðurstaða. Bæði lið fengu ágætis færi til þess að hirða stigin þrjú, en það var þó sterkur varnarleikur sem var í fyrirrúmi í þessum leik.

Pálmi Rafn Pálmason var öflugur inni á miðsvæðinu hjá KR og var potturinn og pannan bæði í varnar- og sóknarleik KR. André Bjerregaard var hættulegasti leikmaður KR að þessu sinni, en hann hefur komið eins og stormsveipur inn í KR-liðið eftir að hann gekk til liðs við KR í júlí.

Dion Acoff átti nokkra góða spretti í fyrri hálfleik, en það var þó Guðjón Pétur Lýðsson sem hafði sig mest í frammi í sóknarleik Valsmanna. Guðjón Pétur fékk nokkur fín skotfæri, en honum tókst ekki að finna netmöskvana á marki KR.

Miðvarðarpör beggja liða stóðu sig feykilega vel og héldu sóknarmönnum liðanna lengstum í skefjum í leiknum. Þá voru markverðir liðanna öruggir í sínum aðgerðum og gripu vel inn í þegar þess var þörf.

Valur trónir á toppi deildarinnar með 31 stig og hefur áfram fimm stiga forskot á Stjörnuna sem er í öðru sæti deildarinnar. KR er hins vegar með 22 stig í fimmta sæti deildarinnar.

KR 0:0 Valur opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert