Víkingar unnu tíu Blika Milosar

Þórður Steinar Hreiðarsson sækir í átt Geoffrey Castillion í kvöld.
Þórður Steinar Hreiðarsson sækir í átt Geoffrey Castillion í kvöld. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Víkingur Reykjavík gerði góða ferð í Kópavoginn í kvöld og nældi í þrjú stig eftir 2:1-sigur á Breiðabliki í 15. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Milos Milojevic, þjálfari Blika, var þarna að mæta sínu gamla liði í fyrsta sinn en lærisveinar hans spiluðu manni færri frá 38. mínútu eftir að Kristinn Jónsson fékk rautt spjald.

Blikar fengu þó sannkallaða óskabyrjun þegar Aron Bjarnason kom þeim yfir strax á þriðju mínútu leiksins. Martin Lund bar boltann upp að miðju, Arnþór Ari stakk honum inn á Aron sem geystist inn á teig og lagði boltann laglega í hornið. 1:0 fyrir Blika.

Það tók Víkinga hins vegar ekki nema tíu mínútur að jafna metin. Þar var að verki hollenski framherjinn Geoffrey Castillion eftir að hafa snúið Þórð Steinar Hreiðarsson auðveldlega af sér, stungið hann af og skorað í hornið. Staðan 1:1 og leikurinn bráðfjörugur.

Á 38. mínútu dró aftur til tíðinda þegar Kristinn Jónsson í liði Breiðabliks fékk að líta sinn annað gula spjald aðeins stundarfjórðungi eftir það fyrra. Bæði fékk hann eftir að hafa verið of seinn í boltann og brotið af sér og Blikar því einum færri það sem eftir lifði leiks. Staðan 1:1 í hálfleik.

Manni fleiri stjórnuðu Víkingar leiknum eftir hlé en Blikar voru mjög þéttir til baka. Varnarmúr þeirra hélt þar til á 70. mínútu þegar Castillion skoraði aftur, nú eftir að boltinn datt fyrir hann í teignum eftir hornspyrnu. Staðan 2:1 fyrir Víkinga og tuttugu mínútur eftir.

Víkingar héldu áfram að stjórna ferðinni en Blikar náðu þó nokkrum efnilegum skyndisóknum. Mikil harka var í leiknum enda mikið undir í lokin en ekki voru mörkin fleiri og lokatölur 2:1 fyrir Víkinga. Þeir eru nú með 22 stig í 5. sæti deildarinnar en Blikar eru með 18 stig í 8. sætinu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

Breiðablik 1:2 Víkingur R. opna loka
90. mín. +2. Mikill hasar. Ívar Örn leggst og Damir öskrar hann á fætur aftur. Sveinn Aron er felldur við vítateiginn en ekkert dæmt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert