Auðvitað viljum við skora fleiri mörk

Orri Þórðarson
Orri Þórðarson Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Ég er aldrei sáttur við tap en ég er stoltur af stelpunum,” sagði Orri Þórðarson, þjálfari FH, eftir 2:1 tap gegn KR í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Eftir sex vikna hlé þá er þetta þriðji leikurinn á viku en þær gáfu allt í þetta og mér fannst við ekki eiga skilið að tapa þessum leik en Hólmfríður kláraði þetta fyrir þær og gerði það vel.”

FH liðinu gekk illa í sóknarleiknum í kvöld og skapaði ekki mikið af færum, er það áhyggjuefni?

„Við lögðum þetta dálítið upp með að sitja til baka. Þetta er þriðji leikurinn okkar á viku og við töldum okkur ekki geta haldið það út að spila hápressu í 90 mínútur. Við fengum eitt dauðafæri í fyrri hálfleik en náðum kannski ekki að skapa eins mikið og við hefðum viljað. Á móti kemur að þá man ég ekki eftir öðrum færum hjá þeim en þessum sem þær skora úr, en ég tek ekkert frá KR-liðinu, þær mættu ákveðnar eins og staðan í deildinni gefur til kynna.“

Á meðan KR er í mikilli fallbaráttu þá siglir FH lygnan sjó um miðja deild, hefur Orri áhyggjur af því að leikmenn séu eitthvað farnir að slaka á?

„Ég hef ekki áhyggjur af því, við höfum talað um þetta. Nú þegar sæti í deildinni er tryggt þá ætlum við okkur að halda áfram að safna stigum, bæta okkur og sýna hvað í þetta lið er spunnið. Stelpurnar gáfu allt í leikinn og ég var ánægður með það.“

FH situr í 6. sæti deildarinnar en liðið hefur aðeins skorað 14 mörk í 13 leikjum sem er mikið minna en liðin fyrir ofan, þarf liðið ekki að gera betur?

„Við þurfum að verjast á mörgum mönnum og spila góða hjálparvörn. Við þurfum að hafa meira fyrir því heldur en liðin í efri hlutanum að verja markið okkar sem er þá á kostnað sóknarleiksins en það er alveg rétt að þetta er eitthvað sem þarf að bæta.“

„Það kemur líka inn í þetta að við erum með stelpur frammi sem eru fæddar 2001, þær eiga eftir að styrkjast, fá meiri hraða og verða betra. Það er líka það, ég held að við verðum sterkari á næsta ári og árið eftir það en auðvitað viljum við skora fleiri mörk og vonandi náum við að bæta það sem eftir er af tímabilinu.“

FH var aðeins með fjóra leikmenn á varamannabekknum í kvöld en ekki sjö eins og leyfilegt er. Hvers vegna?

„Við erum ekki með stóran hóp og þurfum að spila þetta saman með 2. og 3. flokki sem spiluðu í gær og svo aftur á morgun. Þetta er ekki stærri hópur en þetta og ég er ekki að kalla leikmenn í hóp sem ég veit að eru ekki að koma inn á. Fjórir varamenn er nóg, það eru þrjár skiptingar,“ sagði Orri að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert