Búið að vera erfitt andlega

Leikmenn Grindavíkur fagna í kvöld.
Leikmenn Grindavíkur fagna í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Ég er sáttur við stigið en við hefðum getað tekið þrjú stig, mér fannst við eiga mjög góðan leik,“ sagði Róbert Jóhann Haraldsson, þjálfari Grindavíkur, eftir 2-2 jafntefli gegn ÍBV í Pepsi-deild kvenna í Vestmannaeyjum í dag.

„Við leyfðum þeim að hafa boltann og lokuðum á þeirra sóknaraðgerðir sem eru langir boltar inn fyrir vörnina á Cloé sem er stórkostlegur leikmaður og erfitt að stoppa hana þegar hún kemst af stað. Við tvímönnuðum á hana og það gekk ágætlega,“ sagði Róbert þegar mbl.is náði tali af honum eftir leik.

„Þetta er búið að vera erfitt andlega eftir bikarleikinn þannig að maður vissi ekki við hverju mátti búast að koma hérna aftur. Við fáum svo mark í andlitið eftir 2 mínútur, fyrirgjöf frá Cloé sem fauk inn. Þá hugsaði ég það versta en þvílíkur karakter hjá mínu liði og ég er mjög stoltur af þeim að koma til baka eftir þessa byrjun.“

Liðin mættust á sunnudaginn var í undanúrslitum í bikar og það mátti sjá mun á Grindavíkurliðinu. 

„Við héldum boltanum betur í þessum leik og við þorðum að spila boltanum. Það var eins og þegar við lentum undir færi öll pressan af liðinu og þær fóru að rúlla honum á milli. Ég er með einstaklinga sem geta alveg gert hlutina og þær þurfa að fara trúa því," sagði Róbert að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert