Gengur vel að halda leikmönnum einbeittum

Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er bara ánægður með þrjú stig og leik okkar manna, mjög ánægður með að halda markinu hreinu,“ sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari Vals eftir 2:0 sigur á Grindavík að Hlíðarenda í kvöld þegar leikið var í 16. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildarinnar, og er öruggur með sitt lið í efsta sætinu.

„Við vitum að Grindavík er með mjög gott fótboltalið, sem heldur boltanum vel svo við undirbjuggum okkur undir erfiðan leik enda varð það raunin. Þeir duttu aftur á völlinn en komu svo á okkur en mér fannst við leysa það ágætlega, hefðum átt að skora annað mark í fyrri hálfleik, þá hefðum við verið í þægilegri stöðu.“

Valur er nú með 5 stiga forskot á Stjörnuna en vita vel að það er nóg af stigum í pottinum, eitthvað sem reynslubolti eins og Ólafur þjálfari gerir sér grein fyrir. „Við eigum eftir að fara víða í síðustu leikjunum og eigum marga erfiða leiki eftir, það er mikið eftir af mótinu og margt á eftir að gerast en við veltum því ekkert fyrir okkur, hugsum bara um okkur. Það gengur vel að halda leikmönnum einbeittum. Þeir eru fókusaðir, vita að við þurfum að spila tuttugu og tvo leiki, fram að því hugsum við bara um að klára mótið eins og menn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert