Sannfærandi sigur Þórs/KA gegn KR

Þór/KA og KR mættust í kvöld í Pepsi-deild kvenna á Þórsvellinum á Akureyri. Voru það heimakonur sem unnu nokkuð sannfærandi sigur, 3:0 og stigu við það lítið skref nær Íslandsmeistaratitlinum.

Þór/KA byrjaði leikinn af krafti og komst í 1:0 strax á 4. mínútu. Var þar að verki sjálfur borgarstjórinn, Stephany Mayor, eftir undirbúning Nataliu Gomez. Toppliðið þjarmaði að KR fyrstu 20 mínúturnar og hefði átt að bæta við marki. Leikurinn jafnaðist svo og fengu liðin sín færi. Mörkin í fyrri hálfleiknum urðu þó ekki fleiri.

Þór/KA hafði öll völd í seinni hálfleik og bætti þá við tveimur skallamörkum. Fyrra markið skoraði Hulda Ósk Jónsdóttir eftir góða fyrirgjöf Önnu Rakelar Pétursdóttur. Bianca Sierra skoraði svo annan leikinn í röð eftir góða fyrirgjöf Huldu Bjargar Hannesdóttur.

Þór/KA hefur sem stendur tíu stiga forskot á ÍBV en Blikar eru ellefu stigum á eftir norðankonum en eiga leik til góða. KR er ekki alveg laust við falldrauginn, er í áttunda sæti, með sjö stiga forskot á Fylki.

 

Þór/KA 3:0 KR opna loka
90. mín. Betsy Hassett (KR) fær gult spjald Braut á Söndru Maríu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert