„Ég er ekki að fara að hætta með landsliðið“

Freyr Alexandersson á hliðarlínunni á EM í sumar.
Freyr Alexandersson á hliðarlínunni á EM í sumar. AFP

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, sagði á fréttamannafundi í dag að hann væri ekki að hætta með landsliðið en ummæli hans sem bentu til þess fyrir skömmu vöktu mikla athygli.

Freyr lét þá hafa eftir sér að hann gæti endurskoðað stöðuna eftir fyrstu þrjá leikina í undankeppni HM sem fram fara nú í haust.

„Ég var spurður að því hvort eitthvað myndi breytast á haustmánuðum. Ég er ekki að fara að hætta með landsliðið, það er alveg klárt,“ sagði Freyr og útskýrði ummæli sín frekar.

„Það sem ég vildi koma frá mér er að það er mikilvægt að allir fari í sömu átt og vinni að sömu markmiðum. Alveg sama í hvaða starfi það er, ef ekki er einhugur hvert er verið að fara þá vill enginn vinna í þannig umhverfi. Ég þurfti að fá svör frá mínu samstarfsfólki, KSÍ og leikmönnum hvort allir væru einhuga að fara í sömu átt að gera betur.

Ég finn ekki neitt annað á þessum tímapunkti en allir séu að fara í sömu hátt og þar af leiðandi lítur ekki út fyrir neitt annað en að ég klári þessa undankeppni með íslenska landsliðinu,“ sagði Freyr.

Samningur hans gildir út næstu undankeppni fyrir HM 2019, en komist liðið áfram á lokamótið þá er ákvæði í samningi Freys um að hann stjórni liðinu ef til þess kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert