Fimm mörk sem eru öll nákvæmlega eins

Kristófer Sigurgeirsson.
Kristófer Sigurgeirsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer Sigurgeirsson, þjálfari Leiknis R., var svekktur eftir að fjögurra leikja sigurgöngu liðsins lauk á Ásvöllum í kvöld er liðið tapaði 5:3 gegn Haukum í 19. umferð 1. deildar karla í knattspyrnu.

„Þetta var að mörgu leyti sérstakur leikur, mikið af mörkum og við réðum ekki við hraðann á þeim. Þeir skora fimm mörk sem eru öll nákvæmlega eins og við réðum ekki við hraðann en að mörgu leyti vorum við að spila fínasta leik.“

Haukur Ásberg Hilmarsson átti góðan leik fyrir Hauka í kvöld, lagði upp þrjú mörk á samherja sína og skoraði að lokum sjálfur. Hefðu Leiknismenn getað gert meira til að stöðva hann?

„Hann vinnur svolítið stöðuna einn á einn og það er gríðarlegur hraði á þessum gæja, ég hugsa að ekki margir hefðu ráðið við hann í dag.“

Skörð hafa verið höggvin í Leiknisliðið og vantaði m.a. fyrirliðann Brynjar Hlöðversson sem tók út leikbann í kvöld en Kristófer er ánægður með framlag þeirra ungu leikmanna sem hafa fengið tækifæri undanfarið.

„Við vorum með þrjá lykilmenn í banni og mjög ungan bekk. Það eru tveir strákar fæddir árið 2001 og þrír 2000 og það er gott fyrir félagið að þeir fái smjörþefinn af þessu. Það er gaman að gefa þeim tækifæri og ég væri ekki að því nema þeir væru nógu góðir.“

Leiknisliðið státar af býsna hávöxnum leikmönnum og fékk 13 hornspyrnur í kvöld. Þarf liðið ekki að gera betur í föstum leikatriðum?

„Jú, ég er alveg sammála því. Það er hálfótrúlegt að boltinn dytti nú ekki inn einhvern tímann í þessum hornspyrnum, við eigum að vera betri þar.“

Að loknum 19 umferðum er Leiknir í 7. sæti með 29 stig, er það ásættanlegur árangur?

„Vill maður ekki alltaf meira? Við myndum vilja það og að vera aðeins hærri í töflunni líka,“ sagði Kristófer að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert