Rakel er komin í fámennan hóp

Rakel Hönnudóttir í leik með Breiðabliki gegn sínu gamla félagi, …
Rakel Hönnudóttir í leik með Breiðabliki gegn sínu gamla félagi, Þór/KA. mbl.is/Golli

Rakel Hönnudóttir, landsliðskona í knattspyrnu og fyrirliði Breiðabliks, komst í vikunni í fámennan flokk íslenskra knattspyrnukvenna.

Þegar Breiðablik vann KR, 2:0, í Vesturbænum á miðvikudagskvöldið lék Rakel sinn 200. leik í efstu deild hér á landi og hún er aðeins sú ellefta frá upphafi sem nær þessum stóra áfanga.

Rakel, sem er 28 ára gömul, var aðeins 15 ára þegar hún lék fyrst í deildinni með liði Þórs/KA/KS árið 2004 en þá spilaði hún þrjá leiki. Hún spilaði með sama liði í 1. deild árið eftir en frá og með 2006 breyttist það í Þór/KA og þar lék Rakel í efstu deild frá 2006 til 2011 og samtals 97 leiki í deildinni.

Frá 2012 hefur hún spilað með Breiðabliki og gegn KR lék hún sinn 100. leik með Kópavogsliðinu í deildinni, og þá um leið 200. leikinn samanlagt.

Í þessum 200 leikjum hefur Rakel skorað 119 mörk, átta þeirra á þessu tímabili. Hún gerði 74 mörk fyrir Þór/KA og hefur nú gert 45 fyrir Breiðablik. Hún er í 9. sæti yfir markahæsti leikmenn deildarinnar frá upphafi.

Leikjahæstar í efstu deild:

241 Sandra Sigurðardóttir
236 Harpa Þorsteinsdóttir
233 Sigurlín Jónsdóttir
220 Auður Skúladóttir
217 Olga Færseth
215 Guðrún Jóna Kristjánsdóttir
215 Rakel Logadóttir
213 Málfríður Erna Sigurðardóttir
207 Dóra María Lárusdóttir
203 Ásgerður Stefanía Baldursdóttir
200 Rakel Hönnudóttir

Þá er Rakel sú þriðja sem nær bæði að spila 200 leiki og skora 100 mörk í deildinni en á undan henni hafa Olga Færseth og Harpa Þorsteinsdóttir náð slíkri tvennu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert