Þetta var algjörlega glórulaust

Birkirr Bjarnason sækir að vörn Finna í leiknum í kvöld.
Birkirr Bjarnason sækir að vörn Finna í leiknum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Birkir Bjarnason landsliðsmaður í knattspyrnu var ekki sáttur við að Robin Lod fengi að vera áfram inni á vellinum eftir að hann braut gróflega á Alfreð Finnbogasyni á 27. mínútu í sigurleik Finna gegn Íslendingum í undankeppni HM í Tampere í kvöld.

"Ég ætla ekki að fara að kenna dómgæslunni um hvernig fór en hún var allavega ekki með okkur. Við erum búnir að sjá myndir af brotinu á Alfreð í fyrri hálfleik og það var púra rautt spjald - algjörlega glórulaust, og svo mörg smáatriði sem hann sá ekki og það var svekkjandi," sagði Birkir við mbl.is.

"Það var eins og við værum ekki alveg mættir í leikinn í byrjun og fyrri hálfleikurinn var einhvern veginn þannig. En við fengum mörg færi til að jafna metin, Finnarnir gátu líka skorað seint í leiknum, en við áttum að nýta einhver af öllum þessum færum."

Hann var ekki tilbúinn til að taka undir að möguleiki Íslands á efsta sæti riðilsins væri nokkurn veginn úr sögunni eftir þetta tap.

Nei, fyrsta sætið er alls ekki úr sögunni. Króatía er með erfiðan leik á eftir og við verðum bara að hugsa um næsta leik gegn Úkraínu á þriðjudaginn. Við eigum þrjá leiki eftir, við erum með 13 stig, og erum staðráðnir í að fara áfram," sagði Birkir Bjarnason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert