Eigum augljóslega að læra af fyrri mistökum

Albert Guðmundsson með boltann í leiknum við Albaníu í dag.
Albert Guðmundsson með boltann í leiknum við Albaníu í dag. mbl.is/Golli

„Þetta er súrt. Við hefðum hæglega getað unnið þennan leik, en því miður gekk það ekki,“ sagði Albert Guðmundsson, fyrirliði U21-landsliðsins í knattspyrnu, eftir 3:2-tapið gegn Albaníu á Víkingsvelli í dag, í undankeppni EM.

Albert var afar óánægður með varnarleik íslenska liðsins en óhætt er að segja að mörkin þrjú sem gestirnir skoruðu hafi verið keimlík:

„Þau voru öll alveg eins. Við eigum augljóslega að læra af fyrri mistökum eftir fyrsta markið. En það þýðir ekkert að láta hanka sig á þessu. Við þurfum bara að setja hausinn upp og brjóstkassann út, og einbeita okkur að næsta leik,“ sagði Albert.

Þetta var fyrsti leikur Íslands í undankeppninni en sá þriðji hjá Albönum, sem hefur eflaust hjálpað þeim til að vera betur samstilltir:

„Kannski, en við erum ekki að leita að neinum afsökunum. Við eigum bara að vinna þennan leik. Við fengum æfingaleiki gegn sterkum þjóðum eins og Englandi, og erum ekki að leita að neinum afsökunum. Ísland er þekkt fyrir góðan varnarleik en þessi varnarleikur, í mörkunum sérstaklega, var afleitur,“ sagði Albert, og tók undir að sér í lagi hefði verið kjaftshögg að fá á sig mark í blálok fyrri hálfleiks, eftir að hafa náð 1:0-forystu nokkrum sekúndum áður:

„Það var helvítis tuska, en við ræddum það í hálfleik að nota þetta sem jákvæðan punkt, ef það er hægt, til að halda okkur meira á tánum í seinni hálfleik. Við komum ekki nógu góðir út úr klefanum í seinni hálfleik, en skoruðum samt helvíti gott mark. Það dugði því miður ekki til,“ sagði PSV-leikmaðurinn, sem sýndi oft frábæra takta í leiknum í dag og lagði upp seinna mark Íslands með góðri aukaspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert