Fer sáttur að sofa í kvöld

Sverrir Ingi Ingason ræðir við Heimi Hallgrímsson fyrir leik Íslands …
Sverrir Ingi Ingason ræðir við Heimi Hallgrímsson fyrir leik Íslands gegn Úkraínu í kvöld. mbl.is/Golli

„Mér fannst þetta bara frábær leikur hjá öllu liðinu. Við vorum öruggir í okkar aðgerðum allan leikinn og mér fannst þeir aldrei ná að skapa neina hættu. Liðin voru að þreifa fyrir sér í fyrri hálfeik og mættu varfærin til leiks. Það létti pressuna á okkur að ná að skora snemma í seinni hálfleik og þá þurftu þeir að opna sig og við nýttum okkur það,“ sagði Sverrir Ingason sem kom inn í byrjunarlið íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í 2:0-sigri liðsins gegn Úkraínu í undankeppni HM 2018 í kvöld. 

„Þeir voru vissulega mun meira með boltann í upphafi leiksins, en þeir voru aðallega að spila boltanum á milli sín á stöðum sem sköpuðu ekki usla. Þeir voru að halda boltanum í varnarlínunni og miðsvæðinu sem var bara í fínu lagi. Við vissum það að þeir væru góðir á boltann og við yrðum að vera þolinmóðir í varnarleiknum. Við vorum þéttir og gáfum fá sem engin færi á okkur,“ sagði Sverrir Ingi um spilamennsku íslenska liðsins. 

Sverrir Ingi fékk langþráð tækifæri í þessum leik, en hann hefur beðið þolinmóður eftir tækifæri með liðinu. Sverrir Ingi var sáttur við sína frammistöðu í þessum leik og hann má vel líka klárlega vera það.

„Liðið hefur spilað frábærlega undanfarin fjögur ár og ég er tiltölulega nýkominn inn í þennan hóp. Ég var bara mjög ánægður að fá tækifæri í þessum leik og ég held að ég hafi skilað mínu hlutverki bara nokkuð vel. Við héldum allavega skipulagi og héldum hreinu þannig að ég fer sáttur að sofa í kvöld,“ sagði Sverrir Ingi hógværðin uppmáluð um frammistöðu sína í leiknum í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert