Má ekki verða lið sem fer upp og niður

Keflvíkingar fögnuðu í leikslok.
Keflvíkingar fögnuðu í leikslok. Ljósmynd/Víkurfréttir

„Ég er bara ánægður með að Keflavík sé komið í efstu deild og nú þarf bara að halda sig þar og reyna að stefna á toppinn,“  sagði Guðni Kjartansson, þrautreyndur þjálfari og Keflvíkingur.  

„Ég vonaðist til að þeir myndu hafa það í fyrra en nú gekk það og þá verður að stefna upp á við.  Menn lærðu eflaust af því að falla en það er líka styrkleiki liðsins.  Nú er liðið í erfiðri deild og á möguleika á að halda sig þar, má ekki lenda ekki í því að verða lið sem er að fara upp og niður.“

Erfið fæðing en lærðum

„Vissulega var þetta erfið fæðing en líka rosa mikil þolinmæði, sem sýnir styrkinn í liðinu og hann er svakalegur,“ sagði  Jón G. Benediktsson formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur.

„Ég efaðist aldrei um að við myndum fara upp um deild, þetta er hörkulið og við lærðum í fyrra að við þyrftum að vera þolinmóðir og vissum að við vorum betri en í fyrra.  Við erum farnir að hugsa um næsta ár.  Það er allt klárt fyrir það, sami hópurinn í kringum þetta og sama liðið en við bætum kannski á okkur einhverjum blómum.“

Mun berjast fyrir sæti mínu

„Ég átti fyrir tímabilið ekki von á að spila svona mikið því ég kom meiddur undan vetri að jafna mig eftir fótbrot en þetta var frábært,“ sagði  Adam Árni Róbertsson, 18 ára.  Hann stóð sig með prýði gegn Gróttu en þetta er hans fyrsta tímabil með meistaraflokki og hefur tekið þátt í 18 af 19 leikjum Keflavíkur í sumar. 

„Ég held að ég eigi alveg erindi að vera með næsta ár og mun að sjálfsögðu berjast fyrir sæti mínu.  Það verður samkeppni enda deild hinna bestu á Íslandi en ég er tilbúinn að leggja mig allan fram.  Mér finnst mjög mikill metnaður í Keflavík og mikill vilji til að vera í efstu deild, það skín af starfsfólkinu og öllum sem koma að klúbbnum þessi metnaður.   Markmiðið var alltaf af fara upp í Pepsi-deildina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert