Fannst brotið á leikmanni okkar

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar.
Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er mjög svekkjandi niðurstaða. Mér fannst við vera komin langt með að tryggja okkur sigurinn, en við gleymdum okkur í örskotsstund og þá var titilinn hrifsaður frá okkur,“ sagði Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, sem var daufur í bragði þegar mbl.is ræddi við hann eftir að lið hans hafði tapað, 3:2, í bikarúrslitaleik í knattspyrnu kvenna í kvöld. 

„Við verðum að líta í eigin barm þar sem við höfðum ekki nógu góðar gætur á þeirra hættulegasta leikmanni. Það má ekki líta af Cloé [Lacasse] þar sem hún getur skapað mörk upp úr engu. Einbeitingaleysi okkar varð til þess að við misstum af þessum titli og það eru gríðarleg vonbrigði,“ sagði Ólafur Þór um jöfnunarmark ÍBV undir lok venjulegs leiktíma. 

Ólafur Þór hafði öðrum hnöppum að hneppa þegar ÍBV nældi í vítaspyrnuna sem skóp sigurmark Eyjakvenna og hann gat því ekki tjáð sig um hvort dómurinn var réttmætur eður ei.

Ein gulrót eftir á vonbrigðartímabili

„Ég var upptekinn við það að mótmæla því að við fengum ekki aukaspyrnu áður þegar ÍBV vann boltann áður en þeir komust í sóknina þar sem þær fengu vítið. Mér fannst brotið á mínum leikmanni þar og ég var að mótmæla þeim dómi þegar vítaspyrnan var dæmd. Ég sá það þess vegna ekki og get ekki sagt til um hvort þetta var vítaspyrna eða ekki,“ sagði Ólafur Þór um aðdragandann að sigurmarki ÍBV. 

„Krafturinn í sóknarleiknum okkar sem hafði verið þó nokkur fram að þriðja marki ÍBV fjaraði svolítið út. Við náðum ekki að skapa opin marktækifæri og ég veit ekki hvort að leikmennirnir hafi verið að svekkja sig eða hver var ástæðan fyrir því. Við náðum ekki að setja þrýsting á þær og ná í jöfnunarmarkið sem til þurfti,“ sagði Ólafur Þór um lokamínútur leiksins.

„Nú þurfum við að sleikja sárin og gíra okkur í lokasprettinn í deildinni. Við fáum svo eina gulrót í viðbót sem er þátttaka okkar í útsláttarkeppninni í Meistaradeild Evrópu. Sigur í þessum bikarúrslitataleik hefði ekki gert það að verkum að við værum ánægðar með tímabilið. Það er mikil vonbrigði, en við verðum hins vegar að klára það með sóma. Við erum með miklar keppnismanneskjur í okkar röðum og ég hef enga trú á því að við munum ekki rífa okkur upp eftir þetta tap,“ sagði Ólafur Þór um framhaldið hjá Stjörnunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert