Auðvitað fór aðeins um mig

Heimir Guðjónsson þjálfari FH og Davíð Þór Viðarsson fyrirliði ræða …
Heimir Guðjónsson þjálfari FH og Davíð Þór Viðarsson fyrirliði ræða málin. mbl.is/Golli

„Við náðum svo að sigla þessu heim í seinni hálfleik, við hefðum getað skorað fleiri mörk og Víkingar líka en ég held að þetta hafi verið skemmtilegur leikur fyrir fólkið,“  sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH eftir 4:2 sigur á Víkingi þegar liðin mættust í Víkinni í dag og leikið var í 19. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

„Við byrjuðum aldrei leikinn og auðvitað fór um mig, staðan hefði getað verið 3:0 fyrir Víkinga eftir 25 mínútur en svo skoraði Davíð fyrsta mark okkar eftir hornspyrnu og þá opnuðust allar flóðgáttir, við fórum þá að hreyfa boltann vel og settum pressu á Víkinga.  Sýndum síðan góðan karakter með þremur mörkum á stuttum tíma.  Við vorum ekki með neina grunnvinnu fyrstu 25 mínúturnar og ekki klárar í leikinn svo að Víkingar gengu á lagið en ég er ánægður með hvernig við komum til baka.“

Aldrei upplifað að kvikni svona í liði

„Ég átti frekar von á að við yrðum ekki svona rólegir og ekki klárir í verkefnið en að við höfum átt von á Víkingum svona sprækum í byrjun og það kom mér mest á óvart,“  sagði Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH eftir leikinn.     „Það er nú bara þannig að Víkingar eru með gott og vel spilandi lið svo ef þú mætir ekki tilbúinn er hætt við að þér verði refsað og sú varð raunin í dag.   Við fórum ekkert af taugum  en það fór auðvitað um mann að lenda tveimur mörkum á útivelli gegn jafnsterku liði og Víkingi. Það var gott að skora svo þetta fyrsta mark okkar því þá fer að hrikta í stoðunum hjá liði með 2:0 forystu og líður vel.   Fyrstu tuttugu mínúturnar leit ekki út fyrir að við værum að fara gera neitt en svo fáum við þetta mark okkar og það kveikir í okkur svo rækilega að ég hef ekki upplifað áður að skora þrjú mörk á einhverjum þremur mínútum í fótboltaleik.  Svo siglum við þessu vel heim í síðari hálfleik.“

Mikið þarf að gerast til að FH nái efsta sætinu af Val. „Við eigum fjóra leiki eftir á stuttum tíma og það eina sem við hugsum um núna er að klára þetta mót almennilega og enda með þokkalega mikið af stigum, ná þessu Evrópusæti.  Það er ólíklegt að við förum að ógna Valsmönnum, þeir eru það öflugir og hafa spilað það vel, verið langbesta liðið í sumar og því miður verður maður að sætta sig við það.  Við ætlum líka að búa til einhvern grunn fyrir næsta ár,“  bætti Davíð við. 

Höfum verið í basli en sýndum nú liðsheildina

„Við byrjuðum leikinn ekki vel en komum svo til baka og unnum í lokin“, sagði Gunnar Nielsen markvörður FH eftir leikinn.  „Það hefur oft verið svona í sumar, þegar við byrjum leiki ekki vel og þó við höfum náð að breyta leiknum og vinna hann, þá er ekki hægt að byrja svona.   Við höfum verið í basli í sumar en sýndum núna liðsheildina og ég er ánægður með að strákarnir skyldu sína að þeir séu alvöru menn og vinna leikinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert