Lengi í bransanum og aldrei upplifað neitt slíkt

Logi Ólafsson þjálfari Víkinga.
Logi Ólafsson þjálfari Víkinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég hef verið lengi í þessum bransa og aldrei í lífinu hef ég upplifað neitt þessu líkt,“  sagði Logi Ólafsson þjálfari Víkinga eftir 4:2 tap fyrir FH þegar liðin mættust í Víkinni í dag þegar leikið var í 19. umferð efstu deildar karla í fótbolta, Pepsi-deildinni.

„Við hefðum getað verið komnir með fjögur mörk áður en FH skorar sitt fyrsta mark og vorum þá frábærir.   Við erum í góðum málum og höfum möguleika á að bæta við mörkum þegar FH skorar svo fyrsta mark sitt en svo kemur þriggja mínútna kafli, sem er í raun óútskýranlegt hrun á liði okkar og fá á sig þrjú mörk á  þremur mínútum er alveg ótrúlegt. Við höfum yfirleitt fengið á okkur mörk í upphafi leikjanna en það gerðist ekki í dag og okkur tókst að skora tvö mörk á undan mótherjanum svo maður ól þá von í brjósti að það væri eitthvað sem við gætum fylgt eftir en svo koma þessi mörk FH.  Yfirleitt þegar við höfum fengið á okkur mörk í upphafi, þá höfum við byrjað en nú koðnuðu menn niður og skiptu algerlega um stíl.“ 

Hvað segir þjálfarinn um stöðu Víkinga í deildinni?  „Það var leiðinlegt að horfa uppá þetta og gerir að verkum að við hefðum getað komið okkur nokkuð þægilega fyrir í deildinni með sigri eða stigi en það tókst ekki og  virkilega dapurt að horfa á þetta. Það þarf ekki snjallan reiknimeistara til að sjá að ef við vinnum leiki og liðin sem eru í samkeppni við okkur gera það, er eðlilegt að við gætum sogast í botnbaráttuna.  Þetta erfitt.“

Við koðnum niður

„Ég get voða lítið sagt um þennan leik,“  sagði Halldór Smári Sigurðsson varnarjaxl Víkinga eftir leikinn.     „Við erum auðvitað fyrst og fremst svekktir, það á ekki að vera hægt að fá á sig þrjú mörk á þremur mínútum og svona mörk.  Okkur leið vel til að byrja með og skorum tvö mörk en þegar við fáum fyrsta markið á okkur þá hreinlega koðnum við niður með stressi og einhverju, sem ég varla útskýrt.“

Víkingar eru í 8. sæti deildarinnar og allt getur gerst segir varnarjaxlinn.  „Það er stutt í botnbaráttuna en það þarf líka á átta sig á því að það er líka stutt í efri hlutann.  Það er stutt í næsta leiki og ekkert annað í stöðunni en að bæta fyrir þetta í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert