Hagstæðustu úrslit að vinna sjálfur

Mikil innlifun í fögnuði Valsmanna eftir að ljóst var að …
Mikil innlifun í fögnuði Valsmanna eftir að ljóst var að liðið hefði tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Vals í knattspyrnu, sagði við mbl.is eftir að titillinn var í höfn í kvöld að loknum 4:1 sigurleiknum gegn Fjölni að stöðugleikinn í liðinu hefði haft mest að segja um niðurstöðu mótsins.

„Þetta er bara geggjuð tilfinning og við erum fáránlega ánægðir með þetta tímabil. Leikmenn eru búnir að standa sig frábærlega, liðið hefur verið mjög gott og það er ótrúlegt að við skulum vera búnir að vinna mótið með töluverðum yfirburðum þegar enn eru tveir leikir eftir,“ sagði Sigurbjörn.

Hvenær sástu að þið væruð virkileg meistaraefni?

„Mér fannst strax í byrjun móts að við værum líklegir. Undanfarin tvö ár höfum við byrjað mótið illa og verið að elta efstu liðin frá byrjun. Núna byrjuðum við þetta á tveimur sigrum, mættum svo FH og KR í þriðja og fjórða leik, unnum annan og gerðum jafntefli í hinum, og þá var ég sannfærður um að við ættum möguleika á að gera eitthvað í mótinu. Með stöðugleika og einbeitingu myndum við vera við toppinn, eða á toppnum, og það hélst.

Svo var bara mikill stöðugleiki í okkar liði á meðan keppinautarnir hikstuðu. Þegar seinni umferðin fór af stað og við unnum Skagann og Ólafsvík fannst mér sigurinn vera í okkar höndum. Eftir það var það eiginlega okkar að tapa mótinu. Við vorum komnir með gott forskot þegar leið á sumarið, héldum því lengi, og það er krefjandi.

Þetta er ekki auðvelt en við höfum hugsað um okkur fyrst og fremst, auðvitað horft á töfluna af og til, en ekki verið að velta okkur upp úr hagstæðum úrslitum hér og þar. Hagstæðustu úrslitin eru alltaf að vinna leikina sjálfir. Þetta er bara svoleiðis,“ sagði Sigurbjörn.

Hann var í síðasta Íslandsmeistaraliði Vals árið 2007 og þá sem fyrirliði.

„Ég á eftir að sjá að einhver hérna hafi orðið Íslands- og bikarmeistari sem leikmaður og síðan sem þjálfari líka. Nú veit ég ekki hvort einhver hefur hefur gert það hjá Val, mér þætti gaman að komast að því. Vonandi upplýsir einhver mig um það. En burtséð frá því þá erum við virkilega ánægðir,“ sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, sem er leikjahæsti leikmaður Vals í efstu deild frá upphafi með 240 leiki en hann lék með liðinu nær óslitið frá 1992 til 2011.

Sigurbjörn Hreiðarsson er aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Vals og var fyrirliði þeirra …
Sigurbjörn Hreiðarsson er aðstoðarþjálfari Íslandsmeistara Vals og var fyrirliði þeirra meistaraárið 2007. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert