Hugsa að þrjú stig muni duga okkur

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV.
Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er hrikalega svekkjandi að fá ekkert út úr þessum, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess hversu mikla vinnu við lögðum í þennan leik. Við spiluðum vel í fyrri hálfleik og hefðum getað skorað tvö eða þrjú mörk þar. Við komumst síðan sanngjarnt yfir, en náum ekki að halda forystunni til enda,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, eftir 2:1-tap liðsins gegn FH í 20. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag. 

„Við vorum komnir allt of aftarlega undir lok leiksins og hefðum einnig átt að gera betur þegar við vorum með boltann og komnir í fínar stöður. Við náðum að halda FH-liðinu í skefjum mestmegnis í leiknum. Þeir nýttu hins vegar færin sín vel. Það var mikill skellur að fá þetta mark í andlitið undir lok leiksins,“ sagði Kristján um spilamennsku ÍBV í leiknum. 

„Staða okkar í fallbaráttunni hefur lítið breyst. Við þurfum minnst þrjú stig í viðbót til þess að koma okkur í þægilega stöðu hvað það varðar að forðast fall úr deildinni. Það fækkaði um einn möguleika til þess að ná í þau þrjú stig með þessu tapi, en nú er bara að gíra sig upp í næsta leik,“ sagði Kristján um framhaldið í fallbaráttu ÍBV.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert