Sigur á mánudaginn skylda

Sandra María Jessen á æfingu í gær.
Sandra María Jessen á æfingu í gær. Ljósmynd/Kristinn Magnússon

„Það má svo sannarlega segja að þetta sé skyldusigur ef við ætlum okkur eitthvað í keppninni. Það er markmiðið og sigur á mánudaginn er skylda,“ sagði Sandra María Jessen, framherji íslenska landsliðsins í samtali við mbl.is. Fram undan er leikur gegn Færeyjum í undankeppni HM og viðurkennir Sandra að hún viti ekki mjög mikið um færeyska liðið, en hún vill sjá það íslenska koma vel stemmt í leikinn.

„Ég veit ekki nógu mikið um þær, þær spila ekki mikið á móti þjóðum sem við erum að spila á móti svo ég þekki lítið til þeirra. Við vitum að þær eru búnar að vinna marga af sínum æfingaleikjum. Þær töpuðu svo stórt á móti Tékkum í fyrsta leik í undankeppninni. Maður er ekki alveg með nógu skýra mynd af þeim og það verður spennandi að sjá hvernig þær standa sig á mánudaginn. Það er undir okkur komið að mæta í okkar besta formi og 100% klárar í þetta.“

„Það eru alltaf forréttindi og heiður að fá að vera í þessum hóp. Það er gaman þegar liðið kemur saman og gæðin á æfingum og nýtt andrúmsloft er eitthvað sem getur hjálpað. Það er rosalega gott og gaman að vera með landsliðinu.“

Sandra segir íslenska liðið staðráðið í að gera vel eftir vonbrigðin á EM í sumar. 

„Við notum bæði reiðina og allt sem upp á vantaði í sumar til að gera þennan leik enn betri. Við erum allar með það í huga að við viljum sanna og sýna að við erum betri en við sýndum í Hollandi.“

Hún metur möguleikana í riðlinum nokkuð góða. 

„Það eru góðar líkur, við verðum að mæta tilbúnar í alla leiki. Við vitum að Þýskaland er með ofboðslega sterkt lið og það verður ekkert auðvelt að stríða þeim. Við ætlum að gera það og ná alla vega öðru sæti í riðlinum og ná umspili.“

Sandra er fyrirliði Þórs/KA sem er einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum þegar tveir leikir eru eftir. 

„Það eru spennandi tveir leikir eftir í deildinni og það er erfitt að vera ekki að pæla í því. Það eina sem skiptir máli núna er þessi leikur á mánudaginn, þegar hann er búinn þá einbeitum við okkur að deildinni og markmiðið er að klára þessa leiki á sigri og fagna titilinum,“ sagði Sandra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert