Enginn heimsendir

Sandra María Jessen
Sandra María Jessen mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja, maður er hálf orðlaus yfir þessu,“ sagði Sandra María Jessen, fyrirliði Þórs/KA, eftir 3:2 tap gegn Grindavík í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag. „Grindavík nýtti bara sínar sóknir og við ekki og það skilaði sigri hjá þeim.“

Þór/KA gat tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri en liðið var ekki líkt sjálfu sér og byrjaði til að mynda báða hálfleikana afleitlega, er það ásættanlegt fyrir lið sem ætlar sem toppsætið?

„Nei það er ekki ásættanlegt, hvað þá ef við ætlum að klára þennan titil. Við þurfum að rífa okkur í gang ef við ætlum að vinna þessa deild. Ég veit ekki hvort við ætluðum bara að gera þetta spennandi fyrir síðustu umferðina en þetta var ekki okkar besta frammistaða í dag.“

Baráttan um bikarinn verður nú útkljáð í lokaumferðinni en Þór/KA mætir FH á heimavelli á meðan Breiðablik, sem er tveimur stigum frá toppnum, tekur á móti Grindavík. Hvað þurfa leikmenn Þórs/KA að gera til að leikurinn í dag endurtaki sig ekki?

„Við þurfum bara að gíra okkur í næsta leik sem verður hreinn úrslitaleikur fyrir okkur. Við þurfum að ná þessum leik úr okkur og einbeita okkur að því sem er í boði í þeim næsta.“

Sandra María er ein af fáum leikmönnum sem var í meistaraliði Þórs/KA árið 2012, er mikilvægt að hún miðli reynslu sína til yngri leikmanna liðsins?

„Það er ótrúlegt hvað liðið er á réttum stað í kollinum þrátt fyrir að vera svona ungt en það klárlega hjálpar að ég og tvær aðrar í liðinu vorum í meistaraliðinu 2012 og vonandi getum við rifið upp þá tilfinningu sem var þá.“

„Við þurfum bara að ná okkur niður og anda rólega, þetta er enginn heimsendir. Við þurfum bara að klára síðasta leikinn, þetta er ekkert flóknara en það,“ sagði Sandra María að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert