Meistarinn Óli Jó

Ólafur Jóhannesson fagnar í leikslok.
Ólafur Jóhannesson fagnar í leikslok. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ólafur Davíð Jóhannesson eða Óli Jó eins og við þekkjum hann flest er búinn að skila Valsmönnum Íslandsmeistaratitlinum í knattspyrnu karla og það á afar verðskuldaðan hátt. Valur, undir stjórn Ólafs, innsiglaði meistaratitilinn um síðustu helgi og með honum bætti Ólafur enn einn titlinum í safn sitt sem þjálfari. Íslandsmeistaratitlarnir eru nú orðnir fjórir sem hann hefur unnið sem þjálfari og bikarmeistaratitlarnir þrír.

Hann kom FH á landakort fótboltans fyrir alvöru þegar hann gerði Hafnarfjarðarliðið að Íslandsmeisturum í fyrsta skipti í sögunni árið 2004 og árin tvö þar á eftir lék FH sama leik með Ólaf í brúnni. FH varð bikarmeistari undir stórn Ólafs árið 2007 og Valur árin 2015 og 2016. Fjórir Íslandsmeistaratitlar og þrír bikarmeistaratitlar skipa Ólafi í hóp með sigursælustu þjálfurum frá upphafi. Þjálfaraferill Ólafs spannar 35 ár en árið 1982 reyndi hann fyrst fyrir sér í þjálfun þegar hann tók að sér að stýra liði Einherja á Vopnafirði. Eitt dæmi af mörgum um góðan árangur Ólafs í þjálfuninni var þegar hann kom Skallagrími úr Borgarnesi upp í deild þeirra bestu og það þótti mikið afrek á sínum tíma að lið frá svo litlu bæjarfélagi ætti lið í efstu deild.

Kemur til dyranna eins og hann er klæddur

Óli Jó, sem varð sextugur í sumar og er elsti þjálfarinn sem gerir lið að Íslandsmeisturum, er skemmtilegur karakter sem kryddar fótboltann til mikilla muna. Ég held að flestir geti verið sammála um það þó svo að ég geri mér grein fyrir því að hann sé ekki allra. Óli kemur til dyranna eins og hann er klæddur. Hann á það til að vera hálfgerður durtur, það þekkja fréttamenn nokkuð vel í gegnum samskipti við hann. En undir niðri leynist húmor og glettni og kannski feimni. Óla líður ekkert vel í sviðsljósinu. Hann fer sínar eigin leiðir og lætur aðra um að baða sig í sviðsljósinu. Hann lætur verkin tala jafnt í boltanum sem og í smíðinni en Ólafur er lærður smiður og grípur af og til í hamarinn.

Auk sérstakrar umfjöllunar um Ólaf sem er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins lýsa fjórir aðstoðarþjálfarar hans samstarfinu við hann.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert